Ernir flýgur aftur á Sauðárkrók

Sauðárkrókur í Skagafirði. Flugfélagið Ernir hefur í desember tilraunaflug þangað …
Sauðárkrókur í Skagafirði. Flugfélagið Ernir hefur í desember tilraunaflug þangað fjórum sinnum í viku næsta hálfa árið. mbl.is/Sigurður Bogi

Flugfélagið Ernir tilkynnti á facebooksíðu sinni í gær að það ætlaði að hefja flug á ný milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. „Fyrir áeggjan ýmissa aðila tókum við áskorun um að gera sex mánaða tilraun í vetur,“ segir Hörður Guðmundsson, forstjóri Flugfélagsins Ernis.

Kvaðst hann telja að eins og staðan væri í dag væri frekar þörf á flugleiðinni yfir vetrartímann en að sumri til.

„Við ætlum í byrjun desember að byrja að fljúga þangað fjórum sinnum í viku.“

Viðbrögðin við tilkynningunni hafa heldur ekki látið á sér standa. „Fleiri hundruð like eins og þeir segja,“ segir Hörður kíminn. Margir hafi þá tjáð sig um málið og lýst einróma yfir ánægju með framtakið.

„Við flugum þarna fyrir nokkrum árum og þá var þessi flugleið styrkt, en það lagðist af þegar Héðinsfjarðargöngin komust í gagnið.“ Flugsamgöngur hafi lagst af í kjölfarið.

„Nú eru menn að sjá að það þarf kannski einhverjar samgöngur þó að það séu komin göng inn til Eyjafjarðar.“

Hann segir Sauðkrækinga og Skagfirðinga hafa verið þá sem nýttu sér flugið í 85-90% tilfella, en Siglfirðingar í minna mæli.

„Við hugsum okkur núna gott til glóðarinnar í samvinnu við heimamenn og stofnanir á staðnum,“ segir Hörður og bætir við að ferðaþjónustufyrirtæki hafi einnig verið að kalla eftir flugleiðinni.

Ernir flýgur líka til Húsavíkur og segir Hörður þeirri flugleið sinnt í nánu samstarfi við heimamenn og ferðaþjónustu. „Það sama á við um flug félagsins til Vestmannaeyja og Hornafjarðar. „Það er svona með vaxandi ferðamannastraum, að þá er kallað eftir þessari þjónustu.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert