Fangar fari í starfsþjálfun og verknám

„Fangar hafa verið afgangsstærð í samfélaginu hingað til. Auðvitað er maður hræddur um að þannig verði það áfram en maður hefur fundið andrúmsloftið breystast mikið á undanförnum árum,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu og talsmaður fanga. 

Afstaða er félag fanga og áhugamanna um bætt fangelsismál. Fyrir kosningarnar setur félagið eitt mál á oddinn, verknám og starfsþjálfun fyrir fanga, sem Guðmundur segir að nauðsynlegt sé að næsta ríkisstjórn beiti sér fyrir. 

„Aðalatriðið er að út úr fangelsunum komi einstaklingar með þekkingu sem þeir geti nýtt. Segjum að fangelsi byðu upp á meirapróf þannig að fangi gæti farið að keyra vöurbíl eftir afplánun. Þá væri staða hans allt önnur.“

Guðmundur sendi fyrirspurn á alla þá flokka sem bjóða fram til alþingiskosninga um afstöðu þeirra til málefna fanga. Hann segist ánægður með þau svör sem hann fékk. 

Allir voru sammála um að í raun og veru þurfi að endurskoða fangelsismál og innleiða betrunarstefnu,“ segir Guðmundur en Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkurinn eru þeir flokkar sem eiga eftir að svara fyrirspurninni.  

Á vinnumarkað en ekki bætur

Hann segir ábatann sem fylgi betrunarstefnu margþættan, sérstaklega í ljósi þess að Ísland sé að reka dýrasta fangelsiskerfi í heimi. Glæpum fækki og kostnaður minnki. 

„Við hljótum að vilja greiða minna til fangelsismála og fá tekjur í formi skatta þegar þessir einstaklingar fara á vinnumarkað í stað þess að fara á félagslegar bætur eins og flestir gera í dag,“ segir Guðmundur. „Við getum ekki komið endanlega í veg fyrir glæpi en við getum komið í veg fyrir að einstaklingur fremji þá aftur og aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert