Vona að fólk fái hlýtt í hjartað

Fylgst er með fæðingu í fyrsta þætti Ævi.
Fylgst er með fæðingu í fyrsta þætti Ævi. Ljósmynd/RÚV

Það er langt, fjögur til fimm ár, síðan ég fékk hugmyndina að þessum þáttum. Þá var ég í tökum fyrir Landann, var á Kaffi Krús á Selfossi að bíða eftir myndatökumanninum mínum og þurfti að grípa næstu servíettu til að punkta hana niður,“ segir Sigríður Halldórsdóttir en þáttaröð hennar Ævi fer í loftið nú um helgina og er fyrsti þáttur sýndur sunnudagskvöldið 22. október.

Eins og nafnið gefur til kynna fjalla þættirnir um mannsævina, frá vöggu til grafar, og verða sjö talsins. Í hverjum þætti er eitt æviskeið tekið fyrir og hefst fyrsti þáttur á bernskunni og er áfram haldið með ævina koll af kolli uns sá síðasti fjallar um ævilok mannsins.

„Tækifærið til að vinna áfram með hugmyndina kom í fæðingarorlofi mínu á síðasta ári og á rölti með vagninn fram og til baka fór ég á flug með hana. Þetta er risastórt umfjöllunarefni, ég veit ekki alveg hvers konar mikilmennskubrjálæði þetta er að taka fyrir lífið allt en eins og gefur að skilja er þetta ekki allsherjar greining á því hvað fer fram á hverjum tíma heldur hugleiðing og vangaveltur í von um að þeir sem eru komnir lengra í lífinu geti miðlað af reynslu sinni og allir grætt á vitneskju þeirra.“

Eiríkur Ingi Böðvarsson sá um myndatöku þáttanna og hafði umsjón með framleiðslunni en í þáttunum er líka spjallað við lækna og sálfræðinga sem útskýra þroska mannsins.

Er eitthvað sem þú lærðir sjálf af því að takast á við þetta verkefni, spjalla við fólk á ólíkum aldri og með ólíka lífsreynslu?

„Kannski hvað við erum öll lík og erum að velta fyrir okkur sömu hlutum. Svo breyttist viðhorf mitt að vissu leyti, mér finnst tilhugsunin um að verða miðaldra til dæmis bara frábær núna.“

Í þættinum sem sýndur verður á sunnudagskvöld verður meðal annars fylgst með því þegar barn kemur í heiminn en Sigríður komst í samband við konu sem var tilbúin að leyfa þáttagerðarfólki að vera viðstatt þegar hún eignaðist son sinn nú í sumar.

„Ég vona að fólk fái hlýtt í hjartað og þættirnir kveiki vangaveltur og samtöl milli kynslóða.“

julia@mbl.is

Sigríður á spjalli við viðmælanda um efri aldursár.
Sigríður á spjalli við viðmælanda um efri aldursár. Ljósmynd/RÚV
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert