Rándýr aukanótt í Berlín

Vél Air Berlín hefur verið kyrrsett í Keflavík frá því …
Vél Air Berlín hefur verið kyrrsett í Keflavík frá því á fimmtudagskvöld. mbl.is/Þ​or­vald­ur Örn Krist­munds­son

Telma Eir Aðalsteinsdóttir og vinkonur hennar komust ekki heim til Íslands í kvöld, eins og áætlað hafði verið, vegna vandræða þýska flugfélagsins Air Berlín. Ein vél félagsins hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli síðan á fimmtudagskvöld vegna not­enda­gjalda sem eru í van­skil­um og eru til­kom­in vegna greiðslu­stöðvun­ar Air Berl­in.

Þær flugu til Berlínar seint á fimmtudagskvöld og lásu um það í þýskum og íslenskum fjölmiðlum að flugfélagið stæði í einhverju stappi og að félagið væri hætt að fljúga til Keflavíkur. 

„Við höfum ekkert heyrt í Air Berlin. Okkur bárust skilaboð í gær þess efnis að netinnritun væri að hefjast en við ákváðum að bíða og sjá aðeins til,“ segir Telma í samtali við mbl.is þar sem hún býr sig undir aukanótt í þýsku höfuðborginni.

Fengu engar upplýsingar

„Við komumst að því klukkan fimm í dag að fluginu hafði verið aflýst. Þá höfðum við hringt í Isavia en litlar upplýsingar fengið en var sagt að okkar flug væri á áætlun“ segir Telma og bætir við að betra hefði verið að fá einhverjar upplýsingar fyrr. Þá hefðu þær líklega getað bókað flug með WOW air sem fór frá Berlín til Keflavíkur fyrr í dag.

Hún segir að hvorki flugfélagið né Isavia hafi greint frá því að fluginu væri aflýst, heldur hafi þær séð það á vefsíðunni kefairport.is. Þar kemur nú fram að flugi frá Berlín, sem átti að lenda 23:45, sé aflýst.

Telma ásamt vinkonu sinni, Karen, í Berlín.
Telma ásamt vinkonu sinni, Karen, í Berlín. Ljósmynd/Telma Eir

„Þegar við áttum okkur á því að fluginu er aflýst förum við strax í það að bóka okkur nýtt flug á eigin kostnað. Á síðu Air Berlin stendur að við munum fá endurgreiðslu en við höfum ekkert heyrt frá þeim,“ segir Telma.

„Við förum á morgun til Kaupmannahafnar í hádeginu, bíðum þar í sex tíma og förum þaðan heim. Það kostar 135 þúsund krónur.“

Telja aðgerðir Isavia ólögmætar

Henni þykir skrítið að ekki hafi verið haft samband við hana á einhverjum tímapunkti og bætir við að hún hafi skráð sig á heimasíðu Keflavíkurflugvallar þar sem komi fram að Isavia eigi að senda tölvupóst vegna breytinga á flugi. Slíkan póst hafi hún ekki fengið.

Hún veltir einnig fyrir sér hvert framhaldið verður; hvort aðrir farþegar sem eigi bókaðar ferðir með Air Berlín til Íslands lendi í svipaðri stöðu og hún. „Samkvæmt þýskum fréttum þá virðast þeir ekki ætla að fljúga aftur til Íslands út af kyrrsetningunni og telja aðgerðir Isavia ólögmætar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert