Þriðjungur þingheims nýtt fólk

Fyrrverandi þingmennirnir Ásmundur Einar Daðason í Framsóknarflokki, Ágúst Ólafur Ágústsson …
Fyrrverandi þingmennirnir Ásmundur Einar Daðason í Framsóknarflokki, Ágúst Ólafur Ágústsson í Samfylkingunni, Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati og Willum Þór Þórsson í Framsóknarflokki gætu sést í þingsölum á ný.

Mikil endurnýjun yrði á þingliði samkvæmt nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Samkvæmt könnuninni myndi 21 nýr þingmaður taka sæti á Alþingi eftir kosningar um næstu helgi, þriðjungur af þingsætunum 63. Þar af eru nokkur kunnugleg andlit sem áður hafa sést í þingsölum fyrir sinn flokk eða viðkomandi hafa skipt um flokk.

Meðal þessara nýju-gömlu þingmanna yrðu Ásmundur Einar Daðason og Willum Þór Þórsson fyrir Framsóknarflokk, Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati og Ágúst Ólafur Ágústsson í Samfylkingunni.

Þau sem gætu komist á þing fyrir aðra flokka en þau voru kjörin síðast fyrir eru Margrét Tryggvadóttir hjá Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi og Páll Valur Björnsson hjá Samfylkingunni í Reykjavík norður. Margrét var áður á þingi fyrir Borgarahreyfinguna og síðar Hreyfinguna á árunum 2009-2013. Hún gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í síðustu kosningum en náði þá ekki kjöri. Páll Valur var þingmaður Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi kjörtímabilið 2013-2016.

Þá eru miðflokksmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson sem kunnugt er þingmenn og fyrrverandi ráðherrar Framsóknarflokksins og kæmust báðir á þing aftur fyrir sinn nýja flokk.

Þess skal getið að við útreikning á fylgi flokka eftir kjördæmum og skiptingu þingsæta eru stundum fáir á bak við tölurnar. Vikmörk eru þá nokkuð há.

Kort/mbl.is

Lilja næði ekki kjöri

Nokkrir varaþingmenn Vinstri-grænna gætu verið á leiðinni á þing; þau Bjarni Jónsson í Norðvesturkjördæmi, Ingibjörg Þórðardóttir í Norðausturkjördæmi, Orri Páll Jóhannsson í Reykjavík suður og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir í Suðurkjördæmi. Öll tóku þau sæti á nýafstöðnu þingi nema Heiða, sauðfjárbóndi frá Ljótarstöðum. Þá er fyrrverandi þingmaður og varaþingmaður Vinstri-grænna í Suðvesturkjördæmi, Ólafur Þór Gunnarsson, á leiðinni á þing á ný ef úrslitin verða eins og könnunin segir.

Framsóknarflokkurinn næði ekki inn manni í Reykjavíkurkjördæmunum, m.a. varaformanni flokksins, Lilju Alfreðsdóttur. Björt framtíð næði hvergi inn þingmönnum og heldur ekki Flokkur fólksins, sem hefur fram að þessu í skoðanakönnunum verið með menn inni. 

Björt framtíð þurrkast út

Þau sem aldrei hafa setið á Alþingi yrðu Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir frá Miðflokki, Heiða Guðný og Halla Gunnarsdóttir frá Vinstri-grænum og Helga Vala Helgadóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Adda María Jóhannsdóttir og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir frá Samfylkingunni.

Yrðu úrslit kosninganna eins og könnun Félagsvísindastofnunar sýnir myndu nokkrir sitjandi þingmenn detta út. Allir þingmenn Bjartrar framtíðar sem sækjast eftir endurkjöri, þ.e. þau Óttarr Proppé, Björt Ólafsdóttir og Nichole Leigh Mosty, næðu ekki kjöri. Fjórir þingmenn Pírata næðu ekki endurkjöri, þau Eva Pandóra Baldursdóttir í Norðvesturkjördæmi, Einar A. Brynjólfsson í Norðausturkjördæmi og Halldóra Mogensen og Gunnar Hrafn Jónsson í Reykjavík norður.

Einnig myndu fjórir þingmenn Viðreisnar detta út, Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður, Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður, Jón Steindór Valdimarsson og Pawel Bartoszek.

Þá eru fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sömuleiðis á leið út, ef kosið væri nú, eða Valgerður Gunnarsdóttir í Norðausturkjördæmi, Unnur Brá Konráðsdóttir í Suðurkjördæmi, Vilhjálmur Bjarnason í Suðvesturkjördæmi og Birgir Ármannsson þingflokksformaður í Reykjavík norður.

Af 21 nýjum þingmanni yrðu 10 konur en af þingi myndu átta þingkonur detta.

Könnunin var gerð dagana 16. til 19. október. Úrtakið var 3.900 manns og um var að ræða bæði síma- og netkönnun. Fjöldi svarenda var 2.395, sem er 62% þátttökuhlutfall.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert