Þurfa nýja augasteina eftir Flórídana-tappann

Dóttir Oddnýjar tók þessa sjálfsmynd skömmu eftir slysið.
Dóttir Oddnýjar tók þessa sjálfsmynd skömmu eftir slysið. Ljósmynd/aðsent

Að minnsta kosti tveir þeirra sem slösuðust er plasttappi af Flórídana-ávaxtasafaflösku þeyttist framan í þá af miklum krafti þurfa að gangast undir aðgerð og fá nýja augasteina. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Mikill þrýstingur myndaðist í flöskunum og olli því tapparnir þeyttust af þeim af miklum krafti þegar þær voru opnaðar.

Hefur Fréttablaðið eftir Oddnýju Sigrúnu Magnúsdóttur að dóttir hennar, Þóra Björg Ingimundardóttir, sé nú tveimur mánuðum eftir slysið með 60% sjón á því auga sem varð fyrir skaðanum. Hún hafi misst mikið úr skóla, beinn útlagður kostnaður þeirra vegna málsins sé talsverður og að útlit sé fyrir að Þóra geti ekki fari í aðgerð fyrr en að loknum jólaprófum.

Hefja aftur sölu eftir slys

Blaðið hefur þá eftir Svavari Þór Georgssyni að hann hafi þurft að gangast undir aðgerð en sé enn með takmarkaða sjón á öðru auga, svartir deplar séu á sjónhimnunni og þetta hafi aftrað honum í vinnu og áhugamálum, sem hafi m.a. verið skotfimi og veiðimennska.

Ölgerðin innkallaði flöskurnar í lok ágúst eftir að fréttir bárust á samfélagsmiðlum af málinu. Var gerjun kennt um í fyrstu og áréttað mikilvægi þess að flöskurnar væru geymdar í kæli. Síðar viðurkenndi Ölgerðin að safinn væri kominn aftur á markað með nýrri tegund tappa sem kæmi í veg fyrir að þetta gæti hent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert