Upphaf poppbyltingarinnar 1967

The Beatles eða BítlarnirÞessir ungu menn settu mark sitt á …
The Beatles eða BítlarnirÞessir ungu menn settu mark sitt á söguna.

Ný eiturlyf, tíska, pólitískar hræringar og samfélagsleg vakning á meðal ungs fólks koma við sögu þegar skoðað er hvaða þættir höfðu áhrif á að árið 1967 er eins merkilegt og raun ber vitni í tónlistarsögunni. Arnar Eggert Thoroddsen ætlar að skoða þetta magnaða ár á námskeiði hjá Endurmenntun HÍ í næsta mánuði.

„Ég er náttúrulega alltaf að hugsa um og pæla í tónlist út frá öllum mögulegum vinklum, félagsfræðilegum og sögulegum. Eftir því sem árin líða þá finnst mér þetta ár, 1967, verða áhugaverðara og áhugaverðara. Samt er ég ekki af þeirri kynslóð sem upplifði þetta ár, sem mér finnst kostur, því fyrir vikið er ég ekki með neinar stjörnur í augunum um að allt hafi verið gott þá og allt sé ömurlegt í dag,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen aðjúnkt við félagsvísindadeild HÍ og tónlistarblaðamaður, en hann ætlar að vera með námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í nóvember þar sem hann mun fjalla um poppbyltinguna miklu sem varð árið 1967.

„Námskeiðið á í raun upphaf sitt í því að ég og Viðar Halldórsson, kollegi minn hér í félagsfræðinni, kenndum saman námskeið í Endurmenntun fyrir tveimur árum síðan sem við kölluðum Dægurtónlist í fræðilegu ljósi. Þar skoðuðum við popptónlist í mjög víðu samhengi út frá fræðilegum pælingum. Eftir það báðu þau mig hjá Endurmenntun að upphugsa námskeið þar sem fjallað væri um dægurtónlist út frá þrengri fókus. Ég sendi þeim nokkrar hugmyndir og það varð ofan á að ég tæki fyrir eitt ákveðið ár, 1967,“ segir Arnar Eggert og bætir við að í tónlistinni rétt eins og í öðru, hvort sem það eru kvikmyndir, bókmenntir eða annað, þá sé ævinlega talað um einhver ákveðin ár eða tímabil, sem marka skil.

„Ég hefði til dæmis getað valið árið 1991 þegar Nirvana gaf út Nevermind, nú eða árið 1977 þegar pönkið fór á flug. Í báðum tilfellum verða skil í tónlistarsögunni. En ég ákvað að taka fyrir árið 1967, sem hefur verið sagt marka upphaf poppbyltingarinnar. Ég ætla á námskeiðinu að skoða hvaða þættir það eru sem höfðu áhrif á að þetta ár er eins merkilegt og raun ber vitni. Ný eiturlyf, tíska, pólitískar hræringar og samfélagsleg vakning á meðal ungs fólks koma þar við sögu. Þá fara tónlistarmennirnir að taka sér meiri völd en áður þekktist, þeir mæta ekki eins og krakkar í hljóðverin og láta segja sér hvað þeir eigi að gera. Menn tóku sér ákveðin listræn völd, sem verður til þess að gerðar voru tilraunir sem voru óhugsandi örfáum árum áður. Af því að Bítlarnir voru Bítlarnir þá gátu þeir til dæmis farið fram á að setja texta laganna aftan á plötuumslagið, sem var í fyrsta skipti sem það var gert. Það var sagt já og amen við öllu sem þeir sögðu, af því þeir voru komnir með ákveðið vald, sem þeir voru ekki með tveimur árum áður.“

Elvis Presley var undanfari

Arnar Eggert segist einnig hafa valið að taka þetta ártal fyrir því plata Bítalanna, Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band, kom út þá, og hún eigi því fimmtíu ára afmæli núna.

„Bítlarnir slá tóninn með því að gefa út þessa plötu, 1. júní 1967. Það er hægt að lesa ótrúlega margt út frá þessari einu plötu, það er svo margt í henni sem segir okkur ákveðna sögu. Ég ætla því að taka hana sérstaklega fyrir annað kvöldið af þeim tveimur sem námskeiðið verður. En það eru fleiri hljómsveitir sem eru afar mikilvægar hvað þetta varðar, til dæmis Byrds, Rolling Stones, Pink Floyd og The Doors, svo ég nefni eitthvað. Það eru því fleiri hljómsveitir en Bítlarnir sem móta þetta merkilega ár þegar popptónlist fór frá því að vera dægradvöl og léttvæg afþreying, yfir í eitthvað sem fólk vill kalla list.“

Arnar Eggert segir ákveðinn upptakt vera að þessari miklu byltingu sem varð í tónlistarsögunni árið 1967. „Rokkið kom á undan, með Elvis Presley og öllu því. Síðan koma Bítlarnir og fóru að herma eftir því og í framhaldinu verður einhver suðupottur í Bretlandi og á sama tíma í Bandaríkjunum, þar sem fólk sem komið er yfir tvítugt er farið að taka meiri stjórn. Skilgreiningarvaldið færist dálítið frá foreldrunum yfir til krakka sem eru að verða fullorðin. Meðlimir Bítlanna voru 24 - 26 ára ca þegar þeir gerðu Sgt. Pepper's. Þetta gerist allt í raun frekar hratt og það eru ákveðnar þjóðfélagsbreytingar sem stuðla að þessu,“ segir Arnar Eggert og bætir við að hann ætli að hafa námskeiðið lifandi og skemmtilegt, og muni styðja mál sitt með tóndæmum, myndskeiðum og ljósmyndum.

Skörp skil árið 1967

Á vef Endurmenntunar segir m.a um námskeið Arnars Eggerts:

„Árið 1967 markaðist af skörpum skilum hvað þróun popps og rokks varðar. Farið verður í aðdragandann að þessum hræringum öllum, hvernig hröð þróun beggja vegna Atlantsála í popptónlistinni gat af sér ár þar sem framsækin popp- og rokktónlist tók sér bólfestu í tímamótaverkum eins og Sgt. Pepper með Bítlunum. Áhrif og eftirmálar þessa nafntogaða árs verða einnig sett undir smásjána. Námskeiðið verður fim. 9. og 16. nóv. kl. 20 - 22. Skráning á Endurmenntun.is

Arnar Eggert segist alltaf vera að hugsa um og pæla …
Arnar Eggert segist alltaf vera að hugsa um og pæla í tónlist út frá öllum mögulegum vinklum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Jim Morisson söngvari The Doors. Sú hljómveit markaði spor 1967.
Jim Morisson söngvari The Doors. Sú hljómveit markaði spor 1967.
Tímamótaplata. Gestir á sýningu í Mexíkó í tilefni 50 ára …
Tímamótaplata. Gestir á sýningu í Mexíkó í tilefni 50 ára afmælis plötunnar, Sgt Pepper Lonely Hearts Club Band. AFP
The Rolling Stones. Áhrifavaldar sem eru enn að, Jagger og …
The Rolling Stones. Áhrifavaldar sem eru enn að, Jagger og Ron Wood en myndin var tekin á tónleikum rétt við París 18. október sl. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert