Dæmdur fyrir hótanir og líkamsárás

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. mbl.is/Gúna

Karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða um 360 þúsund krónur í miskabætur til konu og karls vegna líkamsárásar og hótana. Er um að ræða konu sem maðurinn hafði áður átt stuttlega í sambandi við. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Austurlands í síðustu viku.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín, en hann var ákærður fyrir að hafa skallað konuna í andlitið í maí árið 2014 með þeim afleiðingum að framtönn brotnaði. Þá sendi hann bæði konunni og öðrum manni hótanir á Facebook í janúar árið eftir.

Sendi hinn ákærði til mannsins eftirfarandi skilaboð sem voru talin vera hótanir til þess fallnar að vekja ótta mannsins um líf sitt og velferðð: „en ef þú hefur átt við hana…mun ég lemja þig í druslur og þú munt lenda í hjólastól“, „hey faggi, þú ert dauður“ og „þú ert dauður vinur“.

Degi síðar sendi hann konunni eftirfarandi skilaboð: „C er dauður“, „ef sov er …. Mun hann drekka gegnum strá sem eftir er…. Ef hann er heppinn“, „mun lemja hann í druslur við tækifæri og son hans“,  „flytjið í burtu ógeðin ykkar annars mun ég rústa ykkur“ og „lem bræður þína í druslur“, en í dóminum er nafn hins mannsins táknað með stafnum C.

Hinn ákærði játaði sem fyrr segir brot sín og sagðist iðrast gerða sinna. Þá hafi hann leitað sér meðferðar og flutt á brott til að forðast samskipti við konuna eftir að málið kom upp. Segir í dóminum að litið sé til alls þessa við ákvörðun refsingar, en einnig að líkamsárásin hafi verið ruddaleg og beinst að mikilvægum hagsmunum, líkama og friðhelgi konunnar.

Maðurinn fékk sem fyrr segir tveggja ára skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða konunni 308 þúsund krónur í miskabætur og hinum manninum 50 þúsund í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert