Öll vinna bönnuð á byggingarstaðnum

Lífi og heilbrigði starfsmanna er talið ógnað á staðnum.
Lífi og heilbrigði starfsmanna er talið ógnað á staðnum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Vinnueftirlitið hefur bannað alla vinnu við byggingarvinnustað að Grensásvegi 12, á vegum Úr verktaka ehf. þar sem lífi og heilbrigði starfsmanna er þar talin hætta búin. Ekki má hefja vinnu á svæðinu aftur fyrr en úrbætur hafa verið gerðar og Vinnueftirlitið gefið grænt ljós á að vinna megi hefjast þar á ný. Þetta kemur fram á vef Vinnueftirlitsins.

Við eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins á byggingarstaðinn, þann 1. nóvember síðastliðinn, kom í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur. Var verktaka gert að láta laga þau atriði sem bent var á skýrslu eftirlitsins, að öðrum kosti yrði vinna stöðvuð.

Þann 16. nóvember var farið í endurskoðun á verkstaðnum en ekki hafði verið orðið við fyrirmælum um úrbætur sem krafist var í skýrslunni, þrátt fyrir góðan tímafrest. Öll vinna á verkstaðnum hefur því verið bönnuð.

Athugasemdir sem Vinnueftirlitið gerði voru meðal annars þær að öryggis- og heilbrigðisáætlun vantaði fyrir verkefnið og að ekki hefði verið skipaður öryggi- og samræmingaraðili. Þá væri kaffi- og salernisaðstaða á verkstað óviðunandi. Þar væru óþrif, kaffistofa ófullnægjandi og hurð vantaði á salerni. Einnig væru umferðarleiðir á vinnustað víða hættulegar. Handrið vantaði og stigar væru ófullnægjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert