„Raddir barna og ungmenna skipta máli“

Skjáskot úr myndbandinu

Í tilefni af alþjóðlegum degi barna, 20. nóvember næstkomandi, hafa börn í samstarfi við UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, útbúið nýtt tónlistarmyndband við lag söngkonunnar P!nk, What About Us. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

„Fyrir alþjóðlegan dag barna ákvað ég að fara í samstarf við UNICEF til þess að minna heiminn á að raddir barna og ungmenna skipta máli og að þau eiga að fá að vera þátttakendur í ákvörðunum sem munu móta framtíð þeirra.“ Þetta er haft eftir söngkonunni P!nk í tilkynningu. Hún segist jafnframt stolt af samstarfinu og ánægð með að leyfa börnunum að nota lagið. 

Yfirskrift alþjóðlegs átaks UNICEF á alþjóðlegum degi barna er #KidsTakeOver eða #börnfáorðið og eru ýmsar uppákomur skipulagðar um allan heim. Tilgangurinn er að minna á að börn eiga mikilvæga rödd í okkar samfélagi þennan dag og alla aðra daga og að hlusta skal á það sem þau hafa að segja.

Á þessum degi munu börn um allan heim fá orðið í fjölmiðlum, stjórnmálum, íþróttum og listum, í þeim tilgangi að tala fyrir réttlátum heimi fyrir öll börn. Dagurinn, sem haldinn er 20. nóvember ár hvert, er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Hér má sjá myndbandið í heild sinni

Skjáskot úr myndbandinu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert