„Þarf að hefjast handa strax“

Mengun við gatnamót Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar.
Mengun við gatnamót Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Ég leyfi mér að treysta því að VG fari ekki inn í þetta stjórnarmynstur nema að fá því framgengt að Ísland standist þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Árni er nú í Bonn í Þýskalandi á loftlagsþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann segir við blasa að Íslendingar þurfi á örfáum árum að skipta um orkugjafa þegar kemur að samgöngum og stórauka almenningssamgöngur. Strax á næsta ári hefjist vinna þar sem iðnvæddar þjóðir byrji að móta viðbótarmarkmið, sem hver og ein þjóð þurfi að setja sér, við Parísarsamkomulagið. Ísland eigi langt í land.

Árni hefur trú á því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og fleiri stjórnmálamenn sem komi að myndun nýrrar ríkisstjórnar, geri sér grein fyrir mikilvægi þessara mála. Um stórátak í losunarmálum þurfi ekki að vera neinn málaefnalegur ágreiningur á milli þeirra flokka sem nú reyna að mynda ríkisstjórn.

Undirbúningur frekari markmiða

Árni segir að engar stórar ákvarðanir verði teknar á fundi ráðamanna á loftlagsþinginu, sem ljúki í dag. Fundurinn núna, eins og í Marokkó í fyrra, hafi fyrst og fremst snúist um að vinna úr Parísarsamkomulaginu. Hann segir að strax á næsta ári hefjist vinna við að ná lengra en Parísarsamkomulagið kveði á um. „Hvert og eitt ríki leggur fram hugmynd að eigin framlagi, sem er skuldbinding af hálfu þess ríkis að draga úr losun um ákveðið magn.“ Hann bendir á að Evrópusambandið hafi sett sér markmið um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland sé þar á meðal en ekki sé frágengið hvaða viðbótarskuldbindingar Ísland þurfi að gangast undir. Árið 2020 eigi þessari endurskoðun að vera lokið.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. mbl.is

Áhyggjur af eyríkjum

Árni hefur verið á þinginu síðan á laugardag. Hann segir að til hliðar við stóru fundarherbergin sé mikið rætt um hvað draga þurfi mikið úr losun að komast undir 2 gráðu viðmiðið, en Parísarsamkomulagið kveður á um að hitastig jarðar hækki um minna en tvær eða í besta falli minna en 1,5 gráður. Árni bendir á að hvað láglend eyríki á Karabía- og Kyrrahafinu liggi mörkin við eina og hálfa gráðu ef ekki eigi illa að fara. Hann nefnir Fiji og Seychelles eyjar. „Þessi lönd róa lífróður í von um að það verði samþykkt að auka metnaðinn svo þau verði ekki landlaus.“

Þetta er eitthvað sem Íslendingar ættu að huga að, að mati Árna. Ísland fari ekki varhluta af hlýnun jarðar og súrnun hafsins. „Ef súrnun sjávar heldur áfram af sama hraða á norðurhveli jarðar þá er ekki víst að við getum haldið áfram að kalla okkur fiskveiðiþjóð – eftir örfáa áratugi,“ segir hann.

Róttækra aðgerða þörf

Spurður um væntingar sínar til myndunar nýrrar ríkisstjórnar segir Árni að hann meti það svo að Vinstri grænir hafi mikinn metnað til að koma þessum málum í betra horf á Íslandi. Ísland sé þegar komið fram úr þeim losunarheimildum sem kveði á um í öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar, sem gildi frá 2013-2020. Mjög mikið átak þurfi að verða í samgöngugeiranum til að ná niður þeirri losun sem Ísland hafi skuldbundið sig til.

Eins og sakir standa sé langur vegur frá því að Ísland geti dregið úr losun innan landbúnaðar, iðnaðar, sjávarútvegs, samgangna og úrgagns um 40%, eins og Evrópusambandið hafi samþykkt að gera fyrir 2030 og Ísland á aðild að. „Íslendingar mega búast við að draga úr losun um a.m.k. 35% á tímabilinu 2021 – 2030 og þá þarf að hefjast handa strax.

Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir vinna nú …
Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir vinna nú að myndun nýrrar ríkisstjórnar. mbl.is/Eggert

Hefur trú á stjórnmálamönnum

Árni hefur trú á að stjórnmálaleiðtogar, sem nú myndi ríkisstjórn, muni láta til sín taka en allt bendir til þess að komandi ríkisstjórn verði í fyrsta skipti undir forystu flokks sem stofnaður var með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

Hann bendir á að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hafi í september skilað skýrslu til þingmannaráðs Atlantshafsbandalagsins, þar sem lagt var til að verðleggja kolefnislosun, sem er grundvallaratriði. Í fjárlagafrumvarpi sitjandi ríkisstjórnar hafi enn fremur verið lagt til að tvöfalda kolefnisgjald. Þessar staðreyndir veki honum von í brjósti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert