Fluttur á sjúkrahús vegna ammoníaksleka

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Einn var fluttur undir læknishendur í vikunni eftir að ammoníaksleki varð í vinnslusal frystihúss í Grindavík.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum kemur fram að ástæðu lekans má rekja til ammoníaksrörs í frystisamstæðu í vinnslusal frystihússins sem rofnaði. Starfsmaður hafði sett lítið plastskurðarbretti upp við hlið samstæðunnar sem olli því að rörið fór í sundur.

Annar starfsmaður fann fyrir ertingu í öndunarvegi og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann var þó ekki talinn sýna merki um ammoníakseitrun.

Slökkvilið Grindavíkur aðstoðaði við að gasræsta húsið og gekk það fljótt og vel. Lögreglan tilkynnti Vinnueftirliti um atvikið.

Þá slasaðist karlmaður þegar hann féll af timburpalli í Reykjanesbæ. Maðurinn var við vinnu sína í byggingavöruverslun þegar óhappið varð. Fallið var um tveggja metra hátt og hlaut hann áverka í andliti auk þess sem talið var að hann hefði hugsanlega handleggsbrotnað. Hann var fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og lögregla tilkynnti Vinnumálastofnun einnig um það mál.

Loks slasaðist ung stúlka í Íþróttaakademíunni í Krossmóum. Hún var talin hafa handleggsbrotnað við æfingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert