„Þessum viðræðum er hvergi nærri lokið“

„Við vissum það hins vegar alveg þegar við ákváðum að …
„Við vissum það hins vegar alveg þegar við ákváðum að fara í þessar viðræður að þetta yrði kannski ekki vinsæl ákvörðun,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, segist vera vel meðvituð um að það sé áhætta fyrir flokkinn að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þetta sagði Katrín í þættinum Vikulokin á Rás 1 nú í morgun.

„Ég veit að þetta stjórnarsamstarf getur komið niður á okkar fylgi. Það er heldur ekki vinsælt að vera í ríkisstjórn,“ sagði Katrín og minnti á að ríkisstjórnarsamstarf VG og Samfylkingarinnar hefði einnig komið niður á fylgi flokksins og flokkurinn þá verið við það að detta út af þingi. „Þannig að ég átta mig alveg á að þetta er mikil áhætta fyrir okkur og okkar innra starf og félaga.“  

Katrín kvaðst hins vegar telja að þegar komi að því að horfa á hlutverk stjórnmálanna þá sé mikilvægara að gera ákveðnar málamiðlanir til að ná árangri í samtímanum, frekar en að neita að gera málamiðlanir í von um meiri árangur seinna.

Hvort vegur þyngra árangurinn eða fylgistapið?

„Það er mikilvægara að við stöndum undir því að laga það sem okkur finnst þurfa að laga,“ sagði hún.

„Ég trúi því að Vinstri hreyfingin sem slík lifi þetta af. Við þurfum hins vegar að meta þegar þetta liggur fyrir, hvort að við metum þann árangur sem kynni að nást meira en það fylgistap sem við kunnum að verða fyrir sem flokkur.“

Spurð um skattabreytingar og hvort sátt sé í höfn varðandi þær, kvaðst Katrín vera með hugmyndir að skattabreytingum. „Ég vil gera skattkerfið sanngjarnara og réttlátara, en við þurfum líka að skapa breiðari samstöðu um skattabreytingar. Við þurfum að skapa meiri samstöðu og þess vegna talaði ég fyrir því fyrir kosningar að stjórnmálin þyrftu líka að eiga samtal við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnulífsins og reyna þá að tryggja að það sé einhver samfella í þeim skattkerfisbreytingum sem við gerum svo við séum ekki alltaf að taka þessar kollsteypur.“

Spurð hvort flokkarnir þrír séu búnir að ná saman um þessi mál, segir Katrín svo ekki vera. „Þannig að þessum viðræðum er hvergi nærri lokið.“

Kemur á óvart að fólk sé ekki tilbúið að meta niðurstöðuna

Brotthvarf Drífu Snædal úr VG var einnig til umræðu og sagði Katrín alltaf leiðinlegt að sjá á eftir góðum félögum. „Við vissum það hins vegar alveg þegar við ákváðum að fara í þessar viðræður að þetta yrði kannski ekki vinsæl ákvörðun. Það sem hefur komið mér á óvart er að félagar okkar séu ekki reiðubúnir að meta niðurstöðuna, ef hún verður af þessum viðræðum.“

Þeirri gagnrýni, að stjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar yrði stöðnunarstjórn þar sem ekki yrði farið í róttækar kerfisbreytingar í sjávarútvegs- eða landbúnaðarmálum, svaraði Katrín því til að sú gagnrýni komi aðallega frá þingmönnum fráfarandi stjórnar. „Ég horfi bara á stóru málin fyrir kosningar. Ég hef setið í stjórn sem ætlaði sér mikla hluti í kerfisbreytingum en náði þeim ekki í gegn,“ sagði hún og kvað mikilvægasta verkefni þessarar stjórnar vera að hlusta á fagaðila á borð við landlækni.

„Ég veit að þetta er áhætta og heilmikil áhætta fyrir VG, en ég held það sé líka áhætta fyrir íslenskt samfélag ef maður tekur ekki áhættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert