„Mjög alvarlegt brot“ á Grensásvegi 12

Verið er að breyta hluta húsnæðisins í íbúðarhúsnæði sem Reykjavíkurborg …
Verið er að breyta hluta húsnæðisins í íbúðarhúsnæði sem Reykjavíkurborg hefur gert kaupsamning um kaup á. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum fengið viðbrögð en þau hafa verið algjörlega ófullnægjandi. Við gerum bara ráð fyrir því að þeir séu að vinna í sínum málum og vinna að úrbótum. Bannið nær ekki yfir að úrbætur séu gerðar á vinnustað,“ segir Björn Þór Rögnvaldsson, lögfræðingur hjá Vinnueftirlitinu.

Í síðustu viku setti eftirlitið bann við vinnu á byggingarvinnustað við Grensásveg 12, en við eftirlitsheimsókn kom í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur. Var það mat eftirlitsins að lífi og heilsu starfsmanna væri hætta búin á vinnustaðnum. Þá hafði Vinnueftirlitinu ekki verið tilkynnt um verkið, sem er grundvallaratriði þegar unnið er að byggingu stærri mannvirkja. Fyrir vikið hefur eftirlitið ekki fullnægjandi upplýsingar um verktaka og verkkaupa sem að verkinu standa.

Áður en vinna var alfarið bönnuð hafði verktakanum á staðnum, Úr verktakar ehf., verið afhent skýrsla eftirlitsmanns og fyrirmæli um úrbætur. Var honum gert ljóst að gripið yrði til aðgerða ef ekki yrði brugðist við þeim.

Björn segir að við endurmat hafi komið í ljós að nánast ekkert hafi verið gert til að bæta úr ástandinu, fyrir utan að salernið hafði verið byrgt með einhverjum hætti, en það hafði verið án hurðar.

Grensásvegur 12 er atvinnuhúsnæði sem verið er að breyta að hluta til í íbúðarhúsnæði og hefur Reykjavíkurborg gert kaupsamning um kaup á 24 íbúðum í húsinu. Til stendur að þær verði afhentar borginni 1. apríl 2018. Verða þær svo leigðar til umsækjenda hjá Félagsbústöðum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg verða íbúðirnar greiddar við afhendingu og hefur borgin því enga aðkomu að verkefninu.

Mjög víðtækt brot

Björn segir brotið á umræddum byggingarstað vera mjög víðtækt. „Það er heilstætt verið að brjóta á löggjöfinni. Það er ekki verið að tilkynna okkur um verkið, það er enginn samræmingaraðili og öryggið og aðbúnaðurinn er ekki í lagi, þannig þetta er mjög víðtækt brot.“

Hann segir að þegar margir undirverktakar starfi á saman á hættulegum vinnustað, eins og þarna sé væntanlega raunin, og enginn samræmingaraðili sé til staðar þá sé það eitt og sér hættulegt.

„Það er grundvallaratriði að fá tilkynningu um verkið. Ef við fáum hana ekki þá vitum við til dæmis ekki hver verkkaupi er, en hann getur borið ábyrgð undir vissum kringumstæðum. Við vitum ekki hver er aðalverktaki og hverjir eru undirverktakar. Við vitum í sjálfum sér ekki neitt, þannig að það er mjög alvarlegt brot að tilkynna ekki Vinnueftirlitinu um mannvirkjagerð sem er yfir vissri stærð.“

Oft um einbeittan brotavilja að ræða 

Björn segir of algengt Vinnueftirlitinu sé ekki tilkynnt um slík verk áður en ráðist er í þau. Til standi hins vegar að taka harðar á þannig brotum. „Það er oft sem þetta virðist vera beinn brotavilji. Menn eru bara að hunsa þessar reglur.“ Hann segir marga eingöngu hugsa um skammtímagróða frekar en heildarmyndina. Það græði til dæmis enginn á því að valda vinnuslysi eða heilsubresti á vinnustað.

„Við erum byrjuð að eiga við frekar erfið fyrirtæki þar sem um er að ræða vísvitandi brotastarfsemi. Það má segja að það sé í viðskiptamódelinu að fara ekki eftir reglunum. Við erum að sjá harðari heim,“ segir Björn. Hann tekur þó fram að hann viti ekki hvernig þessu er háttað hjá verktakanum á Grensásvegi 12, enda hefur Vinnueftirlitið ekki fullnægjandi upplýsingar um verkið sem þar er í gangi eða hver ber ábyrgð á því.

„Svo má ekki gleyma því að ef það er brotið á vinnuverndarlöggjöfinni þá er oft brotið á öðrum löggjöfum líka. Kannski ekki verið að greiða fólki eftir kjarasamningum eða eitthvað slíkt.“

Starfsfólkið fær oft ekkert að vita

Hvað Grensásveg 12 varðar er það nú ábyrgðaraðila verksins, aðalverktaka eða verkkaupa, að bregðast við og bæta úr því sem Vinnueftirlitið gerir athugasemdir við til að hægt sé að halda áfram með byggingarframkvæmdirnar.

Björn segir reynt að fylgjast með því eftir fremsta megni að vinnubanninu sé hlýtt og í samræmi við nýja upplýsingastefnu er tilkynnt um bannið á heimasíðu Vinnueftirlitsins. „Tilgangurinn er að fólk sé meðvitað um þetta. Bæði fólkið í kring og starfsmennirnir sjálfir. Oft er þeim ekkert sagt frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert