Sýknaður af ákæru því hann mætti ekki

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað mann og tvö fyrirtæki hans af meiri háttar brotum gegn skattalögum. Sýknudómurinn grundvallast af skorti á gögnum. Í honum kemur meðal annars fram að héraðssaksóknari gekk ekki á eftir því að maðurinn sem var ákærður myndi mæta við aðalmeðferð til að gefa skýrslu. Engin vitni hafi verið kölluð til og því skorti gögn.

Maðurinn hafði tilkynnt að hann myndi ekki mæta við aðalmeðferð, til að gefa skýrslu, þrátt fyrir að hafa ekki lögmæt forföll. „Hefði slík skýrslugjöf verið eðlilegur þáttur í sönnunarfærslu sækjanda fyrir dómi en […] getur ákærandi lagt fyrir lögreglu að sækja ákærða eða færa hann síðar fyrir dóm með valdi ef þörf krefur.“

Um var að ræða ákæru vegna vangreiðslu á samtals 19 milljónum króna, ýmist á virðisaukaskatti eða staðgreiðslu launa.

Tekið er fram í dómnum að hvorki verjandi né sækjandi hafi óskað eftir því að vitni yrðu leidd fyrir dóminn við aðalmeðferð „en skýrslugjöf vitna er eðlilegur þáttur í sönnunarfærslu sakamáls fyrir dómi“. Fram kemur í dómnum að einungis liggi fyrir gögn sem aflað var af hálfu skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara, þar á meðal skýrslur sem ákærði gaf.

Í dómnum segir að í þeim skýrslum hafi maðurinn tiltekið að aðrir nafngreindir menn hefðu annast bókhald félaganna. Gagnrýnt er að hjá héraðssaksóknara hafi sá ákærði ekkert verið spurður um aðkomu þessara manna „þó að tilefni hafi verið til“. „Við meðferð málsins fyrir dóminum hefur hvorki komið fram neitt um að þessir menn, sem ákærði nafngreindi við skýrslugjöf sína hjá skattrannsóknarstjóra, hafi séð um fjármál og skattskil félaganna, né að þeir hafi ekki gert það, en um þetta ber ákæruvald sönnunarbyrði eins og annað sem er ákærða í óhag,“ segir í dómnum.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að gegn neitun mannsins hafi ekki verið færð fram sönnun um sekt sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum. Því verði hann sýknaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert