Fleiri vegir lokaðir vegna ófærðar

Á þessu korti má sjá að margir vegir eru nú …
Á þessu korti má sjá að margir vegir eru nú lokaðir vegna ófærðar. Athugið að kortið uppfærist á vef Vegagerðarinnar. Skjáskot/Vegagerðin

Siglufjarðarvegur er enn lokaður vegna snjóflóðahættu. Sömu sögu er að segja um Súðavíkurhlíð. Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er nú einnig lokaður vegna stórhríðar. Þá er Víkurskarð einnig lokað. Ófært á Klettshálsi, Steingrímsfjarðarheiði, Vopnafjarðarheiði, um Bröttubrekku og á Fróðárheiði. Búið er að opna Holtavörðuheiði. Færðarupplýsingar Vegagerðarinnar breytast hratt. Ætli fólk að leggja í ferðalög getur það fylgst með færðinni hér.

Á Vestfjörðum mun snjóa fram undir hádegi, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar. Vestanlands og vestan til á Norðurlandi lægir mikið um tíma.  Hvessir aftur um miðjan daginn með NA-átt og skafrenningi og að mestu án snjókomu. Frá Eyjafirði og austur úr verður viðvarandi éljagangur, blástur og blinda í dag. Í Öræfum versnar snögglega á milli kl. 12 og 13  og hríðarbylur verður til að byrja með. Snarpir sviptivindar allt 40-45 m/s í hviðum, einkum á kaflanum frá Skaftafelli austur fyrir Svínafell. Lægir ekki að gagni fyrr en í nótt.

Færð á vegum kl. 10.30:

Hálka er á Hellisheiði, Þrengslum og hálka, hálkublettir eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi. 

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og ófært á Bröttubrekku og Fróðárheiði. Mjög hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

það er snjóþekja eða hálka á sunnanverðum Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Flughálka er á milli Kleifarheiðar og Brjánslækjar og ófært á Klettshálsi. Einnig er ófært á Steingrímsfjarðarheiði og þungfært á Þröskuldum og slæmt veður. Þungfært er einnig í Ísafjarðardjúpi og á Drangsnesvegi.

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja eða hálka á vegum. Verið er að kanna ástand á Siglufjarðarvegi m.t.t. snjóflóðahættu. Norðaustanlands er nú lokað á Víkurskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði en annars hálka eða snjóþekja á vegum og töluverð snjókoma eða éljagangur. 

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Austurlandi en þungfært og skafrenningur á Fjarðarheiði. Ófært er á Vatnsskarði eystra.  Hálka eða hálkublettir eru með Suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður. 

Hér má sjá kort af færð á vegum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert