Heillast af andrúmslofti Ég man þig

Úr kvikmyndinni Ég man þig.
Úr kvikmyndinni Ég man þig.

Spennumyndin Ég man þig hefur fengið góða dóma hjá gagnrýnendum þekktra erlendra dagblaða.

Hollywood Reporter segir það koma á óvart að einhver skuli yfirhöfuð heimsækja Skandinavíu, hvað þá að nokkur skuli búa þar miðað við þann fjölda skáldsagna, sjónvarpsþátta og kvikmynda sem þaðan hafa komið undanfarin ár þar sem margt hræðilegt gerist.

„Sannfærandi hryllingur. Ég man þig ætti að hitta í mark hjá mörgum aðdáendum þessarar kvikmyndategundar,” skrifar gagnrýnandinn.

Hann finnur þó að því að andrúmsloftið í myndinni sé meira heillandi en söguþráðurinn því það taki mjög langan tíma fyrir mismunandi sögur að smella saman og fyrir leyndardóminn til að koma í ljós.

Lítið um blóðsúthellingar

Gagnrýnandi New York Times segir að leikstjórinn Óskar Þór Axelsson haldi atriðum með blóðsúthellingum í lágmarki. Í staðinn leggi hann áherslu á andrúmsloftið og flækjur á milli persónanna. Þess vegna sé myndin eftirminnileg.

Í Los Angeles Times  segir að framvinda myndarinnar sé afar hæg og að Óskar Þór notist of mikið við landslagstökur og dramatískan leik og að hryllingsatriðin hefðu mátt vera hryllilegri. Engu að síður segir gagnrýnandinn að myndin ætti samt að höfða til aðdáenda bóka um lögreglumenn sem reyna að ná fram réttlæti í kuldanum.

The Guardian frá Bretlandi gefur myndinni þrjár stjörnur af fimm mögulegum og segir að myndin hafi nægilegt skemmtanagildi en hana vanti meiri hrylling. Einnig truflar það gagnrýnandann að gripið sé til yfirnáttúrulegra útskýringa í söguþræðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert