Íslenski hesturinn er „kraftmikill, ævintýragjarn og fyrir alla“

Hvítur hestur á svatri strönd í kynningarmyndbandi Horses of Iceland …
Hvítur hestur á svatri strönd í kynningarmyndbandi Horses of Iceland sem var frumsýnt í dag. Ljósmynd/Tjarnargatan úr myndbandinu

„Aðalmarkmiðið er að kynna íslenska hestinn og sýna hvers fjölhæfur hann er. Hann er vinalegur, kraftmikill, ævintýragjarn og fyrir alla,“ segir Þórdís Anna Gylfadóttir verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu um kynningarmyndband Horses of Iceland sem var frumsýnt í dag. Myndbandið sýnir hestinn í íslenskri náttúru, eiginleika hans og það sem hann stendur fyrir.



Myndbandinu er ætlað að vera ein helsta stoðin í kynningu á íslenska hestinum í markaðsverkefni Horses of Iceland. Vonir standa til að myndbandið fái jafn góðar viðtökur eða betri en síðasta myndband Horses of Iceland um gangtegundir íslenska hestsins sem um 900.000 manns hafa séð. 

Ljósmynd/Marta Gunnarsdóttir

Íslenski hesturinn á sér dyggan aðdáendahóp og eru til að mynda félög í kringum íslenska hestinn í 21 þjóðlandi í Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu. Það þýðir að allt markaðsefni og aðgerðir taka mið af fjölbreyttum aðstæðum og styðja við útbreiðslu hestsins um heim allan. Ísland er upprunalandið sem hefur mikla sérstöðu í hugum þeirra sem eiga íslenska hestinn. Í dag eru um 60 samstarfsaðilar að verkefninu, að sögn Þórdísar. 

Íslenski hesturinn laðar fólk til landsins 

„Það er einnig markmið að auka áhuga ferðamanna sem koma til landsins að kynnast íslenska hestinum og því samfélagi sem snýr að honum,“ segir Þórdís Anna og vísar til samstarfsaðila í verkefninu sem reka hestatengda ferðaþjónustu. Íslenski hesturinn er einn af þeim þáttum sem dregur ferðamenn til landsins og bendir hún til árlegra kannana sem Ferðamálastofa framkvæmir.

„Aðalmarkmiðið er að kynna íslenska hestinn,“ segir Þórdís Anna Gylfadóttir …
„Aðalmarkmiðið er að kynna íslenska hestinn,“ segir Þórdís Anna Gylfadóttir verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu. Ljósmynd/Tjarnargatan úr kynningarmyndbandinu

Myndbandinu verður dreift á öllum helstu samfélagsmiðlum. Fylgjendur Horses of Iceland eru í dag yfir 60 þúsund og fer fjölgandi. „Þeir eru mjög virkir og eru öflugir að deila efni og fylgjast vel með,“ segir Þórdís Anna.

„Í gegnum samfélagsmiðlana getum við séð nákvæmlega hvar í heiminum myndbandið er skoðað og fær mesta dreifingu, í hvaða landshlutum og borgum,“ segir Þórdís Anna. Slíkar upplýsingar verða nýttar til frekara markaðsstarfs.    

Ljósmynd/Marta Gunnarsdóttir

Markaðsverkefninu Horses of Iceland var hleypt af stokkunum sem fjögurra ára verkefni og hófst árið 2016. Til þess var stofnað af öllum stærstu samtökum og stofnunum innan hestamennskunnar, einkafyrirtækjum og íslenska ríkinu ásamt Íslandsstofu. Aðilum í hestatengdri starfsemi um heim allan stendur til boða að gerast þátttakandi að verkefninu. 

Ljósmynd/Marta Gunnarsdóttir

Tjarnargatan framleiddi myndbandið, Arnar Helgi Hlynsson leikstýrði og skrifaði handritið ásamt Sigtryggi Magnasyni. Grafík var í höndum Hólmsteins Össurar Kristjánssonar og tónlistina skapaði Kjartan Hólm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert