Tvö handtekin í tengslum við vændi

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karl og konu um hádegisbil í dag í þágu rannsóknar hennar á umfangsmikilli vændisstarfsemi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Fólkið, sem er á fertugs- og fimmtugsaldri og grunað um að standa að baki starfseminni, var handtekið í kjölfar húsleitar lögreglu á þremur stöðum í Reykjavík. 

Á tveimur þeirra voru enn fremur þrjár konur á þrítugsaldri. Til rannsóknar er hvort þær séu þolendur mansals og verða þeim fundin viðeigandi úrræði.

Lögregla segir að við húsleitirnar hafi verið lagt hald á tölvu- og símagögn, auk fjármuna. Ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert