Gefa út áætlun um neyðarrýmingu

Svona lítur neyðarrýmingaráætlunin út.
Svona lítur neyðarrýmingaráætlunin út. Kort/Almannavarnir

Ef til neyðarrýmingar kemur vegna eldgoss í Öræfajökli skulu þeir sem búa í námunda við jökulinn fara stystu leið að bæjunum Svínafelli 1, Hofi 1 eða Hnappavöllum 2. Þar skulu þeir bíða frekari fyrirmæla í bílum sínum. Ef til öskufalls kemur skuli fólk leita skjóls innandyra eða halda kyrru fyrir í bílum. Þegar fyrirmæli verða gefin skal fylgja þeim og yfirgefa svæðið.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í neyðarrýmingaráætlun sem almannavarnir hafa gefið út vegna jarðhræringa í Öræfajökli. Þar er farið yfir hlutverk allra viðbragðsaðila ef til eldgoss kemur. Sem dæmi má nefna að 112 er falið að senda SMS-skilaboð á alla sem búa frá Lómagnúpi að Jökulsárlóni sem innihalda fyrirskipun um tafarlausa rýmingu.

Fram kemur að ef eldgos verður í Öræfajökli skuli stefnt að því að rýma svæðið áður. Ef eldgos hefst án fyrirvara skal neyðarrýmingaráætlunin taka gildi.

Hér fyrir neðan má sjá til hvaða bragðs 112, lögreglan á Suðurlandi, björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar skulu taka, ef fyrirvaralaust gýs í jöklinum.

Almannavarnadeild:

  • Felur 112 að senda fjölda SMS-skilaboða á senda frá Lómagnúpi að Jökulsárlóni
    • Frá lögreglu. Eldgos er yfirvofandi í Öræfajökli. Rýmið á Svínafell 1, Hof 1 eða Hnappavelli 2, Höfn eða Kirkjubæjarklaustur eftir því hvar þið eruð. Tafarlaus rýming. Neyðarástand
    • Emergency message from the Police. Volcanic eruption is imminent in Öræfajökull. Evacuate to Svínafell 1, Hof 1 or Hnappavellir 1, Höfn or Kirkubæjarklaustur depending on your location.
  • Virkjar SST

Lögreglan á Suðurlandi

  • Sendir lögreglubíla frá Kirkjubæjarklaustri að Skaftafelli til að aðstoða við rýmingu
  • Sendir Lögreglubíla frá Höfn að Kvískerjum til að aðstoða við rýmingu
  • Sendir allt tiltækt lið til aðstoðar

Björgunarsveitir

  • Kyndill á Kirkjubæjarklaustri lokar við Lómagnúp og aðstoðar við rýmingu
  • Björgunarfélag Hornafjarðar lokar við Jökulsárlón og aðstoðar við rýmingu
  • Björgunarsveitin Kári hefur ekki hlutverk við neyðarrýmingu

Sjúkraflutningar

  • Sjúkrabíll á Kirkjubæjarklaustri fer í viðbragðsstöðu við Hótel Núpa
  • Sjúkrabíll á Höfn fer í viðbragðsstöðu hjá Hrollaugsstöðum í Suðursveit

Rauði krossinn - Fjöldahjálparstöðvar

  • Deildin á Kirkjubæjarklaustri undirbýr móttöku fólks í fjöldahjálparstöð
  • Deildin á Höfn undirbýr móttöku fólks í fjöldahjálparstöð
  • Ákvörðun tekin um opnun fjöldahjálparstöðvar nær rýmingarsvæðinu ef þörf krefur

Slökkvilið

  • Eru í viðbragðsstöðu til aðstoðar við móttöku fólks
  • Aðstoða lögreglu við rýmingu ef þörf krefur

Vettvangsstjórnir

  • Vettvangsstjórn verður á Kirkjubæjarklaustri
  • Vettvangsstjórn verður á Höfn
  • Vettvangsstjórn verður í Öræfum, staðsetning eftir aðstæðum 

Aðgerðastjórn

  • Dynskálar 34, Hellu

Samhæfingarstöð

  • Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, Skógarhlíð 14, Reykjavík

Leiðbeiningar til þeirra sem eru á rýmingarsvæðinu í tilfelli neyðarrýmingar:

  • Farið stystu leið að
    • Svínafelli 1
    • Hofi 1
    • Hnappavöllum 2
  • Bíðið frekari fyrirmæla þar í bílum
  • Ef til öskufalls kemur, leitið skjóls innandyra eða haldið kyrru fyrir í bílum
  • Þegar fyrirmæli verða gefin skal fylgja þeim og yfirgefa svæðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert