Málsskjöl til Hæstaréttar á næstu dögum

Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson.
Guðmundur Einarsson (t.v.) og Geirfinnur Einarsson. mbl.is

Davíð Þór Björgvinsson, fulltrúi ákæruvaldsins í endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins og settur ríkissaksóknari, mun skila ágripi sínu um málið til Hæstaréttar á næstu dögum. Ágripið er í raun öll skjöl málsins sem leggja þarf fyrir Hæstarétt og telur því um 20 þúsund blaðsíður.

Davíð Þór Björgvinsson settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.
Davíð Þór Björgvinsson settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Í kjölfar þess fær Davíð Þór sem og allir verjendur sakborninga í málinu frest til að skila sínum greinargerðum. Að því loknu ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja málið á dagskrá réttarins. Ljóst þykir að það mun þó ekki verða fyrr en á næsta ári.

„Ágripið er svo til tilbúið og ég vona að ég geti farið með það til Hæstaréttar í næstu viku,“ segir Davíð Þór í samtali við mbl.is. „Þetta mjakast áfram.“

Í greinargerðinni mun Davíð Þór setja fram sína kröfugerð í málinu með rökstuðningi. Hann segir þá vinnu nú senn fyrir höndum og að ekki sé tímabært að upplýsa hver hans nálgun verður í því sambandi. 

Óvíst hvernig Hæstiréttur mun taka á endurupptöku

Í apríl sagði Davíð Þór í samtali við mbl.is að í grein­ar­gerðinni myndi hann taka af­stöðu til þess hvaða kröf­ur hann myndi gera. „Einn mögu­leik­inn er sá að krefjast þess að sak­fell­ing­arn­ar standi, eða eft­ir at­vik­um að fallið verði frá viðkom­andi ákæru­liðum eða ég fall­ist á sýknu­kröfu sem gera má ráð fyr­ir að beiðend­ur muni setja fram,“ sagði Davíð Þór í apríl. „Þá get­ur þurft að taka af­stöðu til álita­efnda sem vakna vegna stöðu end­urupp­töku­nefnd­ar sem stjórn­sýslu­nefnd­ar og hvort og í hvaða skiln­ingi Hæstirétt­ur er bund­inn af niður­stöðu nefnd­ar­inn­ar.“

Hann sagði í samtali við mbl.is í morgun að enn væri alls óvíst hvernig Hæstiréttur tæki á málinu. Sú ákvörðun verði tekin út frá þeim kröfugerðum sem lagðar verða fram. „Það er ekki tímabært að velta því mikið fyrir sér.“

Davíð segir að líklega séu allir sammála um það að taka þurfi málið sem fyrst fyrir á nýju ári. „En engu að síður þegar mál eru svona stór og umfangsmikil er oft erfitt að flýta sér og ekki endilega æskilegt. [...] Þetta gengur allt á eðlilegum hraða miðað við umfangið,“ segir hann um feril málsins.

Fallist á endurupptöku í málum fimm manna

Guðmund­ur og Geirfinn­ur Ein­ars­syn­ir hurfu spor­laust árið 1974. Endurupptökunefnd féllst í febrúar á endurupptökubeiðnir er varða fimm menn sem sakfelldir voru í tengslum við mannshvarfsmálin tvö. Verjendur fimmmenninganna sem um ræðir eru: Guðjón Ólafur Jónsson hrl. (Albert Klahn Skaftason), Ragnar Aðalsteinsson hrl. (Guðjón Skarphéðinsson), Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. (Kristján Viðar Júlíusson, áður Kristján Viðar Viðarsson) Jón Magnússon hrl. (Tryggvi Rúnar Leifsson) og Unnar Steinn Bjarndal hrl. (Sævar Marinó Ciesielski).

Áfrýjunarefndin féllst ekki á endurupptöku sjötta sakborningsins, Erlu Bolladóttur.

Með niðurstöðu um endurupptöku er málið núna lögum samkvæmt á þeim stað eins og áfrýjunarstefna hafi verið gefin út eftir dóm undirréttar, þ.e. Sakadóms Reykjavíkur 19. desember 1977. Þar voru þeir Sævar og Kristján Viðar dæmdir í ævilangt fangelsi, sem var fáheyrt.

Endurupptakan snýst um að endurtaka beri meðferð málsins fyrir Hæstarétti, að svo miklu leyti sem Hæstiréttur sér ekki annmarka á því.

Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu 22. febrúar 1980 og mildaði dóma Sakadóms Reykjavíkur. Þar hlaut Sævar 17 ára fangelsi og Kristján Viðar hlaut 16 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert