Nýtt framboð fyrrverandi Framsóknaroddvita

Ómar Stefánsson var bæjarfulltrúi Framsóknar í Kópavogi og vinnur nú …
Ómar Stefánsson var bæjarfulltrúi Framsóknar í Kópavogi og vinnur nú að stofnun nýs framboðs fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ljósmynd/Aðsend

Ómar Stefánsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, er einn þeirra sem koma að stofnun nýs bæjarmálafélags í bænum sem hyggst bjóða fram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næstkomandi vor. Hann segir framboðið ekki tengjast neinni tiltekinni stjórnmálastefnu og segir ljóst að breyta þurfi forgangsröð í þessu næststærsta bæjarfélagi landsins.

Ómar sat í bæjarstjórn Kópavogs frá 2002-2014 og var oddviti flokksins þar í bæ hluta þess tíma. Hann tilkynnti undir lok síðasta kjörtímabilsins að hann myndi taka sér frí frá stjórnmálum fram að næstu kosningum og fljótlega eftir það sagði hann sig úr Framsóknarflokknum.

Hann segir ekki tímabært á þessu stigi málsins að gefa upp hverjir aðrir standi að stofnun framboðsins sem er bæjarmálafélag sem hefur hlotið vinnuheitið Fyrir Kópavog og verður kynnt á opnum fundi annað kvöld. „Þetta er fólk víða að, fólk sem hefur haft samband við mig og fólk sem ég hef haft samband við í því markmiði að vinna að framboði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Einhverjir hafa komið að stjórnmálum áður, aðrir ekki,“ segir Ómar í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hann segir að framboðið sé enn á vinnslu- og hugmyndastigi, en helstu áherslur þess verði m.a. íþrótta- og tómstundamál, viðhald bygginga og annarra eigna Kópavogsbæjar, húsnæðis- og umhverfismál. „Það er af nógu að taka. Viðhaldi hefur ekki verið sinnt nægilega vel í bænum og það sést best á því að búið er að loka grunnskóla, bæjarskrifstofum, leikskóla og vinnuskóla vegna viðhaldsleysis. Svo er alger lóðaskortur í bænum. Kópavogur á nóg land og það er alveg með ólíkindum að ekki sé farið að huga að úthlutun lóða á svæðum eins og Vatnsendahlíð, en þar er deiliskipulag í gildi og allt tilbúið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert