Skóflustunga að hjúkrunarheimili

Frá skóflustungunni í dag.
Frá skóflustungunni í dag.

Fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili við Sléttuveg var tekin í dag. Er það hluti af nýju 21 þúsund fermetra öldrunarsetri í Fossvogi. Skóflustunguna tóku þeir Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi formaður sjómannadagsráðs, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. 

Atfhöfnin er sögð táknrænt upphaf verklegra framkvæmda við nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu fyrir 99 íbúa, en gert er ráð fyrir að jarðvinna við það hefjist í desember. 

Fljótlega hefjast einnig framkvæmdir við byggingu þjónustumiðstöðvar, sem sjómannadagsráð mun eiga og reka, og þriggja 14 þús. fm. fjölbýlishúsa með 140 leiguíbúðum Naustavarar, dótturfyrirtækis Sjómannadagsráðs.

Reykjavíkurborg hefur ritað undir viljayfirlýsingu við Hrafnistu, dótturfyrirtæki sjómannadagsráðs, um rekstur hjúkrunarheimilisins og verður það sjöunda Hrafnistuheimilið á suðvesturhorni landsins. Þá hefur Reykjavíkurborg leitað til sjómannadagsráðs um að hafa umsjón með framkvæmdum og stýra hönnun heimilisins innan samnings þess sem er á milli Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytisins um byggingu hjúkrunarheimilisins.

Gert er ráð fyrir að það taki til starfa á síðari hluta árs 2019. Á þeim tímamótum bætast við nærri eitt hundrað langþráð hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu fyrir veika aldraða einstaklinga og má ætla að fjölgunin dragi nokkuð úr álagi á Landspítala  – háskólasjúkrahúsi þar sem fjöldi aldraðra er tepptur vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert