Vinnuveitendur sýni þolendum stuðning

Metoo-átakið hefur breytt heiminum á örfáum vikum. Samtök launafólks kalla …
Metoo-átakið hefur breytt heiminum á örfáum vikum. Samtök launafólks kalla nú eftir því að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð og stórefli aðgerðir til að útrýma kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. AFP

Samtök launafólks kalla eftir því að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð og stórefli aðgerðir til að útrýma kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Það er ábyrgð atvinnurekenda að fyrirbyggja og stöðva slíka hegðun segir í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi Háskólamanna, BSRB og Kennarasambandi Íslands. 

„Þúsundir hugrakkra kvenna hafa að undanförnu stigið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir á vinnustöðum með notkun myllumerkisins #metoo (#églíka) á samfélagsmiðlum,“ segir í tilkynningunni. Það sé á ábyrgð atvinnurekenda að fyrirbyggja og stöðva slíka hegðun, en Samtök launafólks standi þétt að baki þolendum.

„Við hvetjum hverja þá og hvern þann sem þolað hefur ofbeldi og áreitni á vinnustað að leita til stéttarfélags síns eftir aðstoð. Barátta samtaka stéttarfélaga fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks á fjölmörgum sviðum hefur skilað miklum árangri, m.a. í reglum um vinnuvernd og leiðbeiningum til trúnaðarmanna um meðferð slíkra mála. Samt er enn langt í að kynferðislegri áreitni og ofbeldi verði útrýmt á vinnumarkaði.“

Því miður sé það sjaldgæft að þolendur kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis á vinnustöðum leiti til stéttarfélaga sinna, eftirlitsaðila, úrskurðarnefnda eða dómstóla eftir úrlausn sinna mála. Rannsóknir benda engu að síður til þess að kynferðisleg áreitni sé landlæg og alvarleg á íslenskum vinnumarkaði. Fjöldi þeirra kvenna sem nú hafi sagt sögur sínar af kynferðislegri áreitni undir myllumerkinu #metoo hafi hins vegar vakið marga til umhugsunar og ljóst sé að brýn þörf er á vitundarvakningu.

Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum leggi ríkar skyldur á herðar atvinnurekenda. „Samkvæmt henni skulu atvinnurekendur gera skriflegt mat á áhættuþáttum kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum, áætlun um forvarnir og aðgerðir til að koma í veg fyrir slíka hegðun og loks þær aðgerðir sem grípa skuli til ef talið er eða vitað að slík hegðun eigi sér stað eða hafi átt sér stað,“ segir í tilkynningunni.

Konur ættu ekki að þurfa að berjast fyrir réttindum sínum með #metoo, heldur sé það atvinnurekenda og stjórnvalda að tryggja öruggt vinnuumhverfi á vinnustað. Ekki eigi að sópa kynferðislegri áreitni og ofbeldi undir teppið, heldur eigi að útrýma því.

Efla þurfi forvarnir, stuðla að vitundarvakningu á vinnumarkaði og tryggja að hlustað sé á þolendur. Atvinnurekendur eigi að bregðast rétt við og sýna þolendum stuðning.

Vekja Samtök launafólks þá athygli á því að næstkomandi laugardagur, 25. nóvember, sé alþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. „Stöndum þétt saman og vinnum að því að uppræta ofbeldi og áreitni á öllum sviðum samfélagsins, líka á vinnustöðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert