Vísað af heimili og sætir nálgunarbanni

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem fyrr í nóvember dæmdi að maður skyldi sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur. Maðurinn má ekki koma nær heimili brotaþola, konu sem hann átti í sambandi við, en 50 metra. Hann má ekki nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti.

Í dómi Hæstaréttar segir að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og þau brot varði allt að eins árs fangelsi, ef háttsemi er sérstaklega vítaverð.

Það var lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sem sótti málið en fram kom í skýrslutöku sem fram fór 25. júlí að konan hafi lýst langvarandi grófu líkamlegri og kynferðislegri áreitni í sinn garð. Í skýrslutökunni kom fram að maðurinn hefði áður hlotið dóm og sætt nálgunarbanni fyrir ofbeldi gegn henni.

Í umræddri skýrslutöku kom fram að maðurinn hefði síðast beitt hana ofbeldi í júní en samkvæmt áverkavottorði læknis hefði hún haft dreifða marbletti um allan líkamann.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 10. nóvember, að í skýrslutöku 16. október hefði konan lýst miklu andlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins, frá því hún gaf skýrslu í júlí, en hann mun hafa flutt aftur inn á heimilið í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert