Forsetaframbjóðandi á Bessastöðum

Halla og eiginmaður hennar ásamt forsetahjónunum á Bessastöðum í dag.
Halla og eiginmaður hennar ásamt forsetahjónunum á Bessastöðum í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Við hjónin hittumst og áttum gott spjall um lífið og tilveruna og hin ýmsu mál samfélagins,“ segir Halla Tómasdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi.

Hún og eiginmaður hennar snæddu hádegisverð með forsetahjónunum á Bessastöðum í dag.

Halla segist hafa þekkt Elízu Reid, eiginkonu Guðna Th. Jóhannessonar, síðan hún var stjórnarformaður upplýsingatæknifyrirtækisins Calidris. Þar hafi Elíza hafið störf skömmu eftir að hún kom til Íslands og kynntust þær vel. Báðar séu þær áhugamanneskjur um jafnréttismál.

Hún kveðst jafnframt vera jafngömul Guðna og þau eigi marga sameiginlega vini. Einnig hafi þau bæði starfað í Háskólanum í Reykjavík. „Við áttum skemmtilega vegferð í framboðinu sem einkenndist af gagnkvæmri virðingu.“

Halla hlaut næstflest atkvæði í forsetakosningunum sumarið 2016. Alls hlaut hún 27,5% atkvæða, eða 50.995, á meðan Guðni hlaut 38,49% atkvæða.

Hún segir að virkilega gaman hafi verið að koma á Bessastaði. „Við erum heppin með forseta hér á landi. Það er ekki hægt að segja það sama í öllum löndum heimsins í dag. Ég óska þeim velfarnaðar og er stolt af þeim og þeirra góðu störfum.“

Meðal annars ræddu þau börnin sín í hádegisverðinum og málefni barna almennt. „Þetta var bara persónulegur og ánægjulegur hádegisverður að frumkvæði Guðna,“ segir Halla, sem færði forsetanum að gjöf bókina What Happened eftir Hillary Clinton.

Halla hélt nýverið ræðu á ráðstefnu í Háskólanum í Virginíu þar sem Hillary var aðalræðumaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert