Skóla og sundlaug lokað vegna veðurs

Höfnin á Sauðárkróki. Skólastjórnendur á Sauðárkróki hafa beðið foreldra að …
Höfnin á Sauðárkróki. Skólastjórnendur á Sauðárkróki hafa beðið foreldra að sækja börn sín í skólann. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Skólahald hefur verið fellt niður í dag í Varmahlíðarskóla, skólunum á Sauðárkróki og í Grunnskólanum austan Vatna vegna veðurs og þá verður sundlauginni í Varmahlíð lokað kl. 14. Þetta kemur fram á vef sveitarfélagsins Skagafjörður.is.

Segir í tilkynningunni að veður fari versnandi þegar líður á daginn gangi spár eftir.  Sundlauginni og íþróttamiðstöðinni í Varmahlíð verði því lokað kl. 14 í dag. Engir skólabílar hafi gengið á svæði Varmahlíðarskóla í morgun og þeir nemendur sem mættu séu nú þegar farnir heim.

Þá hafi árshátíð yngri nemenda skólans, sem vera átti kl. 16 í dag, verið frestað um viku.

Grunnskólinn austan Vatna sendi tilkynningu strax í morgun og felldi niður allt skólahald í dag á öllum starfsstöðum, Hofsósi, Hólum og Sólgörðum.

Þá hafa skólastjórnendur á Sauðárkróki, bæði í Árskóla og leikskólanum Ársölum, sent foreldrum tilkynningar og beðið þá um að sækja börn sín í skólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert