Stormur, ofankoma og varasamir vindstrengir

Veðurútlit á hádegi í dag, fimmtudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, fimmtudag.

Norðan hvassviðri eða stormur verður á landinu í dag, með ofankomu um norðanvert landið og mjög hvössum vindhviðum undir Vatnajökli og víðar suðaustan til á landinu. Sunnan og vestan til má búast við varasömum vindstrengjum við fjöll. Eru ferðalangar hvattir til að kynna sér vel færð á vegum hjá Vegagerðinni, veðurspár og viðvaranir áður en lagt er í hann.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum í gær,  en appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Suðausturlandi. Annars staðar á landinu er gul viðvörun og er búist við að hún verði í gildi víða um land út morgundaginn hið minnsta.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að óvíst sé hvort unnt verði að opna um Skeiðarársand og Öræfasveit fyrr en um miðjan dag í dag, en lokunarsvæði nær allt austur að Höfn. 

Þá er hringveginum lokað frá Markarfljóti að Vík, eins er lokað frá Skeiðarársandi að Höfn ásamt frá Djúpavogi að Þvottá og á Fagradal og  þá er Fróðárheiði á Snæfellsnei lokuð. Mývatns og Möðrudalsöræfi eru sömuleiðis lokuð og ólíklegt að þar opnist í dag. Enn fremur er búist er við víðtækum lokunum á Norður- og Austurlandi í dag og á morgun, einnig á Vestfjörðum.

Óvíst er hvort hægt verði að opna langleiðir á Norður og Austurlandi fyrr en á laugardag, en líklega verður hægt að opna fyrr á Vestfjörðum. 

Á laugardag gengur veðrið síðan niður, fyrst um landið vestanvert. Áfram verða þó él og allhvass eða hvass vindur á Norðaustur- og Austurlandi. Eftir það er útlit fyrir að hlýni og mun þá snjó væntanlega taka upp að einhverju leyti er kemur fram í næstu viku.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert