50.000 hafa lýst upp myrkrið

Á fyrstu dögum herferðar mannréttindasamtakanna Amnesty International hafa meira en 50 þúsund manns skrifað undir yfirlýsingu um tíu mál þar sem mannréttindi eru brotin úti í heimi. Herferðin nefnist Bréf til bjargar lífi og var hápunktur hennar ljósainnsetning á Hallgrímskirkju. 

Rúmlega 11.000 undirskriftum var safnað við Hallgrímskirkju til að þrýsta á stjórnvöld í tíu ríkjum að láta af mannréttindabrotum. Enn eru nokkrir dagar eftir af herferðinni og Íslandsdeild Amnesty International skorar á alla Íslendinga að halda loganum lifandi og hjálpa þeim að slá met síðasta árs.

Bréf til bjargar lífi er stór nmannréttindaviðburður á heimsvísu sem fer fram í rúmlega 150 löndum og landssvæðum á aðventunni. Hundruð þúsunda koma þá saman og skrifa milljónir bréfa og korta, eða skrifa undir á vefsíðum eða í sms-áköllum og skora á stjórnvöld að gera umbætur í mannréttindamálum.

Þessi samstöðumáttur hefur skilað breytingum í lífi þeirra sem minnst mega sín. Á hverju ári eru samviskufangar leystir úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolendur pyndinga sjá réttlætinu fullnægt, fangar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri löggjöf hefur verið breytt.

Fyrir þolendur brotanna og fjölskyldur þeirra eru bréfin tákn um alþjóðlega samstöðu fólks sem lætur sig varða réttindi þeirra og mannlega reisn.

 Hér er hægt að skrifa undir bréfin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert