Kleip mig í bæði brjóstin

Óvelkomin snerting,grip eða þukl. er dæmi um kynbundna áreitni.
Óvelkomin snerting,grip eða þukl. er dæmi um kynbundna áreitni.

Tæplega 600 íslenskar flug­freyjur hafa skrifað undir áskorun þar sem þær hafna kyn­ferð­is­legri áreitni og mis­munun og skora á karl­kyns sam­verka­menn sína að taka ábyrgð.  

„Kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun á sér stað í flugstéttinni, rétt eins og annars staðar í samfélaginu. Þó margir jafnréttissigrar hafa unnist með mikilli þrautseigju og vinnu starfsystra okkar eru miklar leifar af kynjamisrétti, stéttaskiptingu og hlutgervingu flugfreyja enn til staðar sem óprúttnir aðilar notfæra sér til að lítillækka, misnota og áreita konur innan stéttarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Vart þurfi að taka fram að ekki gerist allir karlar sekir um áreitni eða mismunun, staðan sé þó hins vegar sú að  nær allar konur verði fyrir slíkri áreitni á starfsferli sínum sem sé algerlega óásættanlegt. „Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að fyrirtækin og stéttarfélagið taki af festu á málinu og komi sér upp eða skerpi á verkferlum og viðbragðsáætlun.“ Misréttinu verði að linna og flugfreyjur krefjist þess að fá að vinna vinnu sína „án áreitni, ofbeldis eða mismununar,“ en áskoruninni fylgja 28 nafnlausar sögur af áreitni og mismunun sem flugfreyjur hafa þurft að sæta í starfi sínu.

Beygir sig yfir mig og sleikir á mér eyrað

„Ég stóð inn á miðjum Saga Class, snéri í raun baki í gangveginn þegar honum fannst við hæfi að koma aftan að mér í annars góðu rými troða höndunum undir hendurnar á mér og klípa mig í bæði brjóstin, mér varð svo illa við að ég snéri mér við og gaf honum á kjaftinn með flötum lófa..hrökklaðist inn í eldhús og fyrsta freyjan mín opnaði inn í flugstj.klefa og hálf henti mér þar inn.. þeir sem þar sátu urðu hálf kjaftstopp að taka við hágrátandi vinnufélaga sem gat ekki útskýrt af hverju... ég náði þó að jafna mig það mikið að ég gat klárað flugið...en þarna urðu engar afleiðingar..ekki fyrir þennan ógeðsmann og enginn alvöru vinnubrögð hjá áhöfn, önnur en þau að finna bara til með mér í þessari stöðu.. ég hét því við sjálfa mig að ég myndi aldrei standa svona aðgerðarlaus hjá ef vinnufélagi lenti í viðlíka ógeði,“ segir í upprifjun einnar.

Önnur greinir frá atviki sem gerðist fyrsta sumarið er hún var í flugi og var kölluð fram í stjórnklefann.

„Ég geng inn, loka og segi hæ. Þess má geta að ég hafði ekki átt nein samskipti við þá áður og þekkti þá ekkert. Ég var á þessum tíma 24 ára og flugstjórinn ca 30 árum eldri. Þegar ég kem þangað inn þá stendur flugstjórinn fyrir aftan sæti flugmannsins og án þess að hika eða segja eitt einasta orð þá gengur hann alveg upp að mér, tekur utan um mig, beygir sig yfir mig og sleikir á mér eyrað. Á meðan á þessu stóð sat flugmaðurinn og horfði glottandi á í sætinu sínu. Svo hlógu þeir bara. Ég get ekki munað hver flugmaðurinn var en man bara hvað ég varð hissa og hversu misboðið mér var.“

„Fyrirgefðu ég réði bara ekki við mig”

Áreitni á sér þá einnig stað í eldhúsi flugvélanna.

„Ég er að ganga frá eftir þjónustu á saga var sccm, flugstjórinn kemur inn í eldhús og ég var búin að beygja mig niður til að setja bakka inn í trolley þá sest hann klofvega yfir mig og byrjar að nudda sér upp við mig og segist ekki ráða við sig, sem sagt var að humpast á mér, mér brá svo að ég bara byrja að hlæja og þetta varð verulega vandræðalegt hann fer svo af baki og sagði „fyrirgefðu ég réði bara ekki við mig” og svo var þetta ekki rætt frekar.“

Farþegar eru heldur ekki saklausir af slíku áreiti, líkt og þessi flugfreyja rifjar upp af samskiptum sínum við farþega á Saga Class.

„Um það bil 20 mínútum fyrir lendingu, þegar við erum að undirbúa farþega og okkur fyrir að lenda, þarf ég að ganga frá dóti upp í farangurshólf sem er því miður staðsett fyrir ofan hans sæti. Hann stendur upp úr sætinu, lætur eins og hann ætli að segja mér eitthvað (ég kurteisin uppmáluð!) og reynir að kyssa mig! Segir í hálfum hljóðum: „Djöfull langar mig að ríða þér.“ Ég beygi mig, vík mér undan honum og dríf mig í burtu. Get ekki beðið eftir að komast úr þessu litla rými og frá þessum ógeðslega manni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert