Landspítali með leyfi til sérnáms í bæklunarlækningum

Ljósmynd/Velferðarráðuneytið

Landspítalinn hefur hlotið viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda til að annast sérnám í bæklunarlækningum. Þetta kemur fram á heimasíðu spítalans, en áður hefur spítalinn hlotið viðurkenningu vegna upphafsnáms til 2ja eða 3ja ára í lyflæknisfræði í samvinnu við Royal College of Physicians í Bretlandi, sem var viðurkennt í lok nóvember í fyrra og fullt sérnám í geðlækningum í júní á þessu ári.

Þá segir að unnið sé að viðurkenningu á sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum, í bráðalækningum, barna- og unglingageðlækningum, fæðinga- og kvensjúkdómafræði, meinafræði og réttarmeinafræði, barnalækningum, skurðlækningum og viðbótarnámi vegna öldrunarlækninga. Stefnt er að viðurkenndu sérnámi í fleiri fögum.

Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi prófessor og kvensjúkdómalæknir á Landspítala, er formaður í nefnd sem velferðarráðuneytið skipaði og hefur það hlutverk að annast viðurkenningarferlið. Nefndin hefur aðsetur á Landspítala og nýtur mikils stuðnings spítalans, þ.m.t. frá framkvæmdastjórn og menntasviði.

„Þetta skiptir máli fyrir uppbyggingu spítalans og heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Um er að ræða bæði vandaðar marklýsingar í samvinnu við erlenda aðila í mörgum tilvikum og svo það að gera úttekt á námsstöðunum og viðurkenna getu þeirra til að veita menntunina. Formleg viðurkenning af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur þýðingu hér á landi og þegar íslenskir læknar fara erlendis til að bæta við sig frekara námi enda er námið þá vottað sem vel upp sett, með góðum námsstöðlum og í takt við það sem gerist best erlendis,“ segir á vef spítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert