Lögregla rannsakar gögn úr myndavélum

Klevis Sula var 20 ára þegar hann lést.
Klevis Sula var 20 ára þegar hann lést. Ljósmynd/Facebook

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að rannsókn málsins þar sem ungur piltur, Klevis Sula, var stunginn til bana á Austurvelli miði ágætlega. Íslendingur á þrítugsaldri stakk Sula og félaga hans aðfaranótt sunnudags fyrir viku en hinn aðilinn hlaut ekki alvarlega áverka.

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að margar eftirlitsmyndavélar hefðu myndað atvikið og lögregla nýtti það efni við rannsókn málsins en meintur árásarmaður er í gæsluvarðhaldi til 15. desember.

Sula var stunginn á Austurvelli aðfaranótt sunnudagsins fyrir viku.
Sula var stunginn á Austurvelli aðfaranótt sunnudagsins fyrir viku. mbl.is/Eggert

„Hluti af þeim gögnum sem við höfum verið að safna í rannsókninni eru gögn úr myndavélum,“ segir Grímur og bætir við að auk eftirlitsmyndavéla sé lögreglan að athuga hvort myndskeið frá einkaaðilum gætu hafa náð einhverju sem gæti nýst.

Eins og greint var frá í gær ætlaði Sula að rétta árásarmanninum hjálparhönd en var stunginn að tilefnislausu. Aðspurður vildi Grímur ekkert segja til um rannsókn lögreglunnar á aðdraganda voðaverksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert