Kerfið verður að laga sig að aðstæðum

„Ef það er eitthvað sem við sem samfélag eigum að …
„Ef það er eitthvað sem við sem samfélag eigum að geta tekið höndum saman um er það velferð barnanna okkar,“ segir Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Hari

Velferð barna er eitthvað sem við getum öll verið sammála um og er eitthvað sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, ætlar að leggja mjög mikla áherslu á í embætti ráðherra. Miklar breytingar hafi orðið á íslensku samfélagi og velferðarkerfið þurfi að laða sig að breyttum aðstæðum. Hann segir að þörf sé á hugarfarsbreytingu og hann vonist til þess að allir stjórnmálaflokkar geti unnið saman að þessu máli ásamt stofnunum og sérfræðingum.

„Ef það er eitthvað sem við sem samfélag eigum að geta tekið höndum saman um er það velferð barnanna okkar. Við fjárfestum á engan hátt betur í framtíðinni en með því að grípa sem fyrst inn í aðstæður með viðeigandi stuðning og aðstoð þegar þess er þörf með velferð barnanna í huga.“

Áður hafi stórfjölskyldan komið meira að uppeldi barna en núna séu afar og ömmur úti á vinnumarkaði líkt og foreldrarnir. Börn séu í minni beinum samskiptum sín á milli en áður var og nú hafi samskiptin að töluverðu leyti færst yfir í rafræn samskipti.

„Þessar samfélagslegu breytingar kalla á hugarfarsbreytingu varðandi það hvernig við nálgumst velferð barna. Ég finn að það er þörf fyrir breytingar og það er eitthvað sem maður finnur á hverjum degi en ég hef ekki nákvæmt svar um hverjar þær eiga að vera,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.

Rúm vika er síðan Ásmundur tók við sem ráðherra en hann segir að hann vilji láta fara í saumana á velferðarkerfinu með það að markmiði að kanna hvernig hægt er að grípa fyrr inn í hjá börnum og koma í veg fyrir að þau leiðist út af brautinni og þurfi þar af leiðandi miklu meira á velferðarkerfinu að halda síðar á lífsleiðinni.

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum ekki bara að tala um velferð barnanna því við erum að tala um velferð fjölskyldunnar og samfélagsins alls,“ segir Ásmundur.

Hann segir að á meðal verkefna sem þurfi að fara í sé að finna úrræði fyrir börn sem líða skort vegna fátæktar foreldra, börn sem þjást vegna áfengissýki foreldra, börn sem þjást vegna ofbeldis á heimili eða geðsýki foreldra. Börn sem hafa af einhverjum ástæðum misst tengsl við foreldra sína og eða hafa verið gefin. Börn sem eiga foreldra í fangelsi og börn sem vegna mikillar fötlunar þurfa á þjónustu að halda. Börn sem þjást vegna erfiðra sjúkdóma og börn sem glíma við einhverfu eða eru með geðsjúkdóma.

Mjög brýnt að grípa inn

„Það er mjög brýnt að grípa inn og hefja þessa umræðu. Því ætla ég fá fulltrúa hagsmunasamtaka sem og sérfræðinga á minn fund til þess að koma stefnumótunarvinnu af stað. Við þurfum að nálgast þetta verkefni sem samfélag og á þverpólitískan hátt.“

Hann bendir á að í setu í fjárlaganefnd hafi hann kynnst starfi margra frjálsra félagasamtaka sem eru að sinna verkefnum vegna þeirrar eyðu sem virðist vera í velferðarkerfinu. Á þessum vettvangi er víða unnið gríðarlega gott starf.

„Þessi mikli fjöldi félagasamtaka sem mörg hver sækja fjárstuðning til ríkisins sýnir að velferðarkerfið þarf að grípa fyrr inn með skipulögðum hætti. Þar er alls ekki við starfsmenn velferðarkerfisins að sakast heldur þurfum við að þróa kerfið samhliða breyttum tímum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem er sannfærður um að með því megi spara háar fjárhæðir til lengri tíma litið og ekki síst bæta stöðu fólks andlega og félagslega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert