Andlát: Kristleifur Guðbjörnsson

Kristleifur Guðbjörnsson.
Kristleifur Guðbjörnsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristleifur Guðbjörnsson, lögreglumaður og bólstrari, lést miðvikudaginn 6. desember síðastliðinn, 79 ára að aldri. Kristleifur var meðal fremstu frjálsíþróttamanna Íslands á sjöunda áratugnum.

Kristleifur var fæddur í Reykjavík 14. ágúst 1938 og ólst upp við Bergþórugötuna. Hann stundaði nám í bólstrun frá 1957 hjá Bólstrun Harðar Péturssonar og lauk sveinsprófi 1962 frá Iðnskólanum í Reykjavík.

Kristleifur stundaði nám við Lögregluskóla ríkisins 1966-68 og starfaði við almenna löggæslu í Reykjavík til vors 2000, er hann fór á eftirlaun.

Kristleifur var fremsti langhlaupari landsins frá því síðla á sjötta áratug 20. aldar og fram á miðjan þann sjöunda, en hann keppti fyrir KR. Á fyrrgreindum árum setti hann 16 Íslandsmet í 2.000 m, 3.000 m, 5.000 m og 3.000 m. hindrunarhlaupi, auk fjölda meta í yngri aldursflokkum. Stóðu sum met hans áratugum saman. Hann varð 28 sinnum Íslandsmeistari. Kristleifur tók þátt í Evrópumeistaramótunum 1958 og 1962. Hann tók fram hlaupaskóna á nýjan leik á níunda áratugnum og setti þá nokkur met í langhlaupum í eldri aldursflokkum.

Um árabil stundaði Kristleifur ræktun skrautrunna og rósa.

Kristleifur kvæntist 12.11. 1960 Margréti Stefaníu Ólafsdóttur, f. 20.4. 1941, d. 21.9. 2017. Börn þeirra eru Guðbjörn Sigfús (látinn), Gunnar Ólafur, Unnur Sigurrún og Hanna Margrét. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin eru þrjú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert