Sameining leik- og grunnskóla í kortunum

Frá Flateyri.
Frá Flateyri. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er rökrétt næsta skref í skólamálum,“ segir Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, um fyrirhugaða sameiningu leikskólans og grunnskólans á Flateyri. Í grunnskólanum eru um 20 börn og í leikskólanum Grænagarði eru um fimm börn. 

Bæjarráð lagði til við bæjarstjórn að skólarnir verði sameinaðir á síðasta fundi bæjarráðs sem haldinn var í gær. Á fundinum var lagt fram minnisblað Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, þar sem fram kemur ósk starfshóps um skólamál á Flateyri um að þeir verði sameinaðir. 

Starfshópur um skólamál á Flateyri hefur verið að störfum síðasta árið til að fara yfir sameininguna. Í vinnu sinni gekk hópurinn út frá því að skólinn væri ein stofnun, sem hann er ekki, og var til að mynda útbúin sameiginleg starfsáætlun í leik- og grunnskóla sem unnið er núna eftir. Þrátt fyrir að stofnanirnar séu ekki sameinaðar var ráðinn einn skólastjóri yfir báðum skólunum.  

Þegar starfshópurinn var skipaður vildu menn ekki ganga lengra í sameiningunni, að sögn Gísla. „Nú telja menn eðlilegt skref að stofnanir séu fullsameinaðar,“ segir Gísli. Hann telur allar líkur á að af sameiningunni verði en enn sem komið er þarf að leysa ýmis mál. Það eru meðal annars húsnæðismál. 

Færeyingar gáfu Flateyringum leikskóla eftir snjóflóðið 1995

Leikskólinn er starfræktur í vinalegu húsi sem Flateyingar fengu í gjöf frá frændum okkar Færeyingum eftir mannskæðu snjóflóðin á Flateyri árið 1995. „Þetta er fallegt hús og við fórum í talsverðar endurbætur á því í sumar. Fólk vill hafa eitthvað um það að segja hvaða starfsemi verði í húsinu ef starfsemi leikskólans verður flutt,“ segir Gísli.  

Gísli segir að vanda verði til verka við ákvarðanir um sameininguna og ekki síður sé mikilvægt að horfa til framtíðar. „Við búumst við því að það muni fjölga í sveitarfélaginu. Það eru aukin umsvif meðal annars í tengslum við fiskeldi. Við erum bjartsýn,“ segir Gísli.  

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri.
Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert