Stokka þarf framgangskerfið upp

Fram kemur, að framgangskerfið sé sniðið að raunvísindamiðuðum sviðum og …
Fram kemur, að framgangskerfið sé sniðið að raunvísindamiðuðum sviðum og greinum þar sem karlar séu í meirihluta, sem geri körlum hægara um vik að fá framgang en konum og skilar sér í hærri launum til karla. mbl.is/Ómar

Það dró jafnt og þétt úr kynbundnum mun á launum starfsfólks Háskóla Íslands á árabilinu 2010 til 2015. Þetta eru niðurstöður rannsóknar á kynjajafnrétti innan HÍ. Rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að töluvert meiri munur er á launum karla og kvenna innan stjórnsýslunnar en í akademískum störfum.

Niðurstöðurnar voru kynntar á fundi í HÍ í dag. Skýrslan ber heitið: „Kynjajafnrétti innan Háskóla Íslands. Jafnlaunarannsókn og úttekt á framgangskerfi“.

Framgangskerfið skilar sér í hærri launum til karla

Í niðurstöðukafla hennar kemur fram, að greining á launum akademískra starfsmanna háskólans hafi sýnt enn fremur að ekki sé um að ræða beinan, kynjaðan launamun í launakerfinu sjálfu, heldur sé hann innbyggður í framgangskerfið sem aftur helst í hendur við vinnumatið. Þannig sé, sem dæmi, framgangskerfið sniðið að raunvísindamiðuðum sviðum og greinum þar sem karlar séu í meirihluta, sem geri körlum hægara um vik að fá framgang en konum og skili sér í hærri launum til karla.

Tekið er fram að kynjamismununin sem greind hafi verið í þessari rannsókn sé því ekki bundin við kynjabreytuna í sjálfu sér heldur megi segja að kyn sé grundvallarbreyta þegar komi að því að greina samsetningu og stigveldaskipan sviða, deilda og greina, akademíska starfsþætti, rannsóknabirtingar, laun og flæði fjármagns í Háskóla Íslands.

Aðrar grundvallarbreytur sem taka þurfi tillit til við útfærslu framgangsreglna í samræmi við stefnur háskólans séu stétt, fötlun, kynhneigð, aldur, þjóðerni, uppruni, trúarbrögð o.fl.

Enn margþættar innbyggðar hindranir í kerfinu

„Almennt voru viðmælendur þessarar rannsóknar sammála um að framgangskerfið sem tekið var í gagnið árið 2010 hafi skilað sér í jákvæðum breytingum frá fyrra kerfi. Helstu þættir sem nefndir voru til marks um framfarir innan kerfisins voru skilvirkni og gagnsæi framgangsferla. Þá kom það sjónarhorn fram, að á grundvelli gagnsæis og skilvirkni feli kerfið sjálfkrafa í sér jafnræði.

Samhliða því að framgangskerfið var einfaldað var verkferlum deilt á fleiri hendur og, eftir tökum, til utanaðkomandi aðila sem minnkaði líkur á kunningjahygli innan háskólans sem oft skaraðist á við kynjapólitík. Þá drógu stöðluð dómnefndarálit enn frekar úr kynjuðu mati umsókna. Loks má leiða líkum að því að reglur háskólans frá árinu 2010 um jafnt kynjahlutfall innan dómnefnda hafi dregið úr kynjaðri slagsíðu framgangsferlisins.

Þrátt fyrir miklar endurbætur á framgangskerfinu leiddi rannsókn þessi þó í ljós að enn eru margþættar innbyggðar hindranir í kerfinu sem geta af sér kynbundna mismunun,“ segir í skýrslunni.

Framgangskerfið þarfnast gagngerrar uppstokkunar

Þá er bent á, að viðvarandi kynjamisrétti meðal akademískra starfsmanna Háskóla Íslands, sem endurspeglist hvað skýrast í þeirri staðreynd að konur séu í meirihluta stúdenta og aðjunkta á meðan karlar séu í meirihluta prófessora, sé afleiðing kerfislægrar mismununar á öllum stigum háskólans og í framgangskerfinu. Ljóst sé af þessari rannsókn, að kynslóðakenningin ein og sér hrekkur skammt sem útskýring og sjálfkrafa leiðrétting, heldur þarfnast framgangskerfið gagngerrar uppstokkunar sem taki mið af innbyggðri mismunun á öllum stigum stefnumótunar og kerfisbreytinga.

Lagðar eru til nokkrar úrbætur sem byggja á niðurstöðum rannsóknarinnar. M.a. er lagt til að það sé tryggt að starfsfólk og stjórnendur HÍ fái greinargóða fræðslu almennt um jafnfréttismál, um samþættingu jafnréttissjónarmiða og um sértækar aðgerðir. Einnig er lagt til að gerð verði ítarleg greining á starfsemi háskólans með tilliti til jafnfréttissjónarmiða. Lagt er til að launakerfið sé einfaldað og mótuð verði heildstæð stefna sem miði að samþættingu starfs og fjölskyldulífs með jafnréttissjónarmið í huga.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert