Ákvörðun lögreglustjórans um tilfærslu var tímabundin

Aldís Hilmarsdóttir, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Aldís Hilmarsdóttir, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðun Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, að flytja Aldísi Hilmarsdóttur, þáverandi yfirmann fíkniefnadeildar lögreglunnar, til í starfi tímabundið getur ekki fallið undir að vera stjórnvaldsákvörðun þar sem hún var bæði tímabundin og fól ekki í sér skerðingu á launakjörum eða réttindum. Þetta er meðal þess sem héraðsdómur kemst að niðurstöðu um í máli Aldísar gegn íslenska ríkinu. Vegna þessa er ríkið sýknað af stefnu Aldísar og ekki gert að greiða henni þær bætur sem hún fór fram á.

Al­dís taldi að það hefði verið stjórn­valdsákvörðun sem byggði á ómál­efna­leg­um for­send­um og í raun verið illa dul­bú­in og fyr­ir­vara­laus brott­vikn­ing úr starfi. Þá sakaði hún Sig­ríði um einelti og fór Al­dís fram á 2,3 millj­ón­ir í bæt­ur vegna þess. Til viðbótar fór hún fram á um 126 milljónir vegna uppreiknaðs mismunar á milli tekna frá Vinnumálastofnun og þeirra tekna sem hún var með hjá lögreglunni.

Ekki dulbúin brottvikning

Í dóminum segir að starfsmönnum beri að hlíta breytingu á störfum sínum og verksviði og það breyti ekki þeirri niðurstöðu þótt starfsmaðurinn hafi ekki viljað breytingar. Ítrekað er að breytingar á mannaforráðum og önnur atriði sem Aldís benti á fyrir dómi að hafi haft áhrif á stöðu hennar skipti þar ekki máli þar sem um tímabundna tilfærslu hafi verið að ræða.

Þá fellst dómurinn ekki á að um dulbúna brottvikningu hafi verið að ræða. „Loks er það niðurstaða dómsins, að þótt fyrir liggi að á árinu 2015 hafi samskipti stefnanda og lögreglustjóra versnað frá því sem áður var, svo sem síðar verður nánar vikið að, sé í ljósi alls framangreinds ekki unnt að fallast á það með stefnanda að framangreind ákvörðun lögreglustjóra hafi í raun falið í sér dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu í starfi, svo sem stefnandi byggir á.“

Segir í dóminum að ákvörðun lögreglustjóra hafi byggst á „málefnalegum sjónarmiðum sem fá stoð í gögnum málsins og vætti vitna.“

Gætti ekki nægilega góðra stjórnunarhátta í ölli tilliti

Tekið er fram að ljóst sé að ekki hafi ríkt nægilegt traust á milli Sigríðar og Aldísar þegar komið var fram á árið 2015 og því hafi skapast spenna í samskiptum þeirra. „Að einhverju leyti þykir mega rekja þá misbresti til þess að lögreglustjóri hafi ekki í öllu tilliti gætt nægilega góðra stjórnunarhátta í þeim samskiptum, og þá einkum með því að upplýsa stefnanda ekki fyrir fram um efni fundar sem hún boðaði hana á 15. desember 2015 og lesa upphátt úr tölvupósti stefnanda í votta viðurvist.“

Ekki er hins vegar fallist á að tilgreind háttsemi „sé þess eðlis að í henni hafi falist síendurtekin og lítillækkandi, móðgandi, særandi eða ógnandi hegðun eða hegðun sem veldur ótta og er almennt til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður.“ Vegna þessa sé ósannað að um einelti sé að ræða sem Aldís hafði haldið fram.

Að öllu þessu sögðu sýknaði dómurinn Sigríði og íslenska ríkið af kæru Aldísar.

Dómur héraðsdóms í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert