Síbrotamaður áfram í gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur dæmdi manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald.
Hæstiréttur dæmdi manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður hefur verið dæmdur í áframhaldandi gæsluvarðhald til 5. janúar vegna ítrekaðra innbrota, þjófnaða, fíkniefnabrota, umferðarlagabrota, fjársvika og eignaspjalla. Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um varðhaldið, en hann hefur setið í varðhaldi frá 11. nóvember.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að þegar litið sé til ferils kærða og þeirra mála sem nú eru í gangi gegn honum sé fallist á að yfirgnæfandi líkur sé á því að maðurinn muni halda brotastarfsemi sinni áfram fari hann frjáls ferða sinna.

Meðal brota sem stefnt er að því að ákæra manninn fyrir eru þjófnaðar- og nytjastuldarmál þar sem hann stal í nokkur skipti fartölvu, farsíma, veskjum, útivistardóti, matvælum, og ýmsum tölvubúnaði.

Var hann handtekinn aðfaranótt 11. nóvember þegar tilkynnt var um par að slást. Þegar lögregla kom á staðinn kom í ljós að kona hafði tekið bíllykla af manninum þar sem hann hafði verið í mikilli neyslu og ekki sofið í þrjá sólarhringa. Upphófust átök milli þeirra í framhaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert