10-11 má nota „Inspired by Iceland“

10-11 er heimilt að nota vörumerkið Inspired by Iceland.
10-11 er heimilt að nota vörumerkið Inspired by Iceland. mbl.is/Hjörtur

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að versluninni 10-11 sé heimilt að nota vörumerkið „Inspired by Iceland“ sem auðkenni fyrir nýja verslun sína í Bankastræti í Reykjavík.

Það var Íslandsstofa sem höfðaði mál á hendur rekstarfélagi Tíu-ellefu ehf. og krafðist þess að félaginu yrði bannað að nota vörumerkið. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður fallist og kröfu Íslandsstofu og bannað að versluninni að nota vörumerkið.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að 10-11 hafi rekið verslun undir heitinu „Inspired by Iceland“ í Leifsstöð‘ frá árinu 2006 en að á árinu 2010 hafi Íslandsstofa hafði markaðsátak undir sama heiti. Báðir aðilar höfðu fengið vörumerkið skráð hjá Einkaleyfastofu í mismunandi flokkum.

Mótmæli Íslandsstofu höfðu hins gert það að verkum að skráning 10-11 á vörumerkinu hafði verið felld niður í einum flokki, en látin standa að öðru leyti. Í kjölfarið krafðist 10-11 þess hins vegar að skráning Íslandsstofu á vörumerkinu yrði felld úr gildi, en beðið var úrskurðar Hæstaréttar í málinu.

Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að lögum samkvæmt gæti vörumerkjaréttur stofnast bæði við notkun vörumerkis og skráningu þess. Ljóst væri að 10-11 hefði notað vörumerkið frá árinu 2006 og því yrði að fallast á að vörumerkjaréttur félagsins hefði stofnast á vörumerkinu. Notkun verslunarinnar á vörumerkinu væri því ekki heimildalaus og bryti ekki í bága við lög.

Samkvæmt því og með vísan í það að ekki hefði verið hægt að sýna fram á að notkun 10-11 á vörumerkinu væri þess eðlis að það væri hægt að villast á því og notkun Íslandsstofu á merkinu, líkt og haldið fram fram. Hæstiréttur hafnaði því kröfu Íslandsstofu og snéri við dómi héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert