Átak gegn skattsvikum

Fjárlagafrumvarp ársins 2018.
Fjárlagafrumvarp ársins 2018. mbl.is/Eggert

Stefnt er að því að á fyrstu mánuðum næsta árs verði lögð fram drög að lagafrumvarpi um hertar aðgerðir og endurbætt tæki í baráttunni gegn skattundanskotum og skattsvikum.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem kynnt var í morgun. Í byrjun þessa árs voru skipaðir tveir starfshópar til að skoða tvo þætti sérstaklega, annars vegar milliverðlagningu í viðskiptum tengdra aðila og hins vegar skattundanskot og skattsvik. Skýrslum starfshópanna var skilað í júní en í þeim eru margvíslegar tillögur og ábendingar um aðgerðir sem ættu að geta nýst skattyfirvöldum vel í baráttunni gegn skattsvikum, að mati fjármálaráðuneytisins.

Þá hefur starfshópur, sem skoðaði skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi hér á landi, einnig skilað skýrslu um aðgerðir til að jafna samkeppnisstöðu innlendrar ferðaþjónustu gagnvart þeirri erlendu í skattalegu tilliti. Sérfræðingar fjármálaráðuneytisins eru nú að útfæra tillögur þessara skýrslna að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir skattkerfisins, en fyrir liggur að tillögurnar snúa bæði að mögulegum laga- og reglugerðarbreytingum og skattframkvæmd á ýmsum sviðum.

Í fjárlagafrumvarpinu segir að þetta sé í samræmi við þau áform sem sé að finna í stjórnarsáttmálanum að „[á]framhaldandi áhersla þarf að vera á alþjóðlegt samstarf gegn skattundanskotum og skattsvikum þannig að Ísland skipi sér í fremstu röð ríkja sem berjast gegn skattaskjólum“.

Hvorki er gert ráð fyrir auknum tekjum né auknum stofn- eða rekstrarkostnaði hjá skattyfirvöldum vegna væntanlegra lagabreytinga í þessu fjárlagafrumvarpi, en við gerð fjármálaáætlunar til ársins 2023 verður horft til væntra áhrifa af fyrirhuguðum aðgerðum, bæði á tekju- og gjaldahlið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert