Framlög til háskóla hækka um 2,8 milljarða

Fjárframlög til háskólanna hækka verulega.
Fjárframlög til háskólanna hækka verulega. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fjárveitingar til framhalds- og háskólanna í landinu hækka um 3,8 milljarða króna á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Hækkun til háskólanna nemur 2,8 milljörðum og framlög til framhaldsskólanna hækka um 1.040 milljónir miðað við framlagt fjárlagafrumvarp fyrir 2017.

Með auknum fjárveitingum til háskólastigsins er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir, svo bæta megi þjónustu við nemendur, auka vísindastarf og styrkja alþjóðlegt samstarf, að segir í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Með auknum fjárveitingum til framhaldsskólastigsins er stuðlað að því að markmiðum um fjármögnun framhaldsskólastigsins verði náð. Fénu er ætlað að efla starfsemi skólanna, auk þess sem stigin verða stór skref til að efla iðn- og verknám,“ segir í tilkynningunni.

„Þessi mikla aukning er liður í þeirri stórsókn sem ríkisstjórnin hefur boðað í menntamálum. Við ætlum að standast samanburð við þær þjóðir sem standa sig best og tryggja að nemendur fái bestu mögulegu þjónustu. Skólarnir eru lykilstofnanir í samfélaginu og það er tímabært að uppfylla þarfir þeirra, svo gæði starfsins verði tryggð,” segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Í tilkynningunni segir að starfsemi íslenskra háskóla hafi stóraukist á undanförnum árum, með auknu framboði náms á öllum stigum, aukinni rannsóknarstarfsemi og virku erlendu samstarfi. Auk kennslu og rannsókna innan skólanna styðji þeir við víðtæka þekkingarstarfsemi, tryggja menntun fagfólks fyrir íslenskt atvinnulíf, styðja við menningu og listir og stuðla að upplýstri samfélagsumræðu og sívaxandi nýsköpun

Meginmarkmið með starfsemi á sviði framhaldsskóla sé að brautskráðir nemendur verði virkir þátttakendur í samfélaginu, vel undirbúnir undir þátttöku á vinnumarkaði og fyrir fræðilegt og starfstengt háskólanám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert