Hátt brottfall úr sveitarstjórnum

Dr. Eva Marín Hlynsdóttir stjórnmálafræðingur rannsakaði brottfall úr sveitarstjórnum á …
Dr. Eva Marín Hlynsdóttir stjórnmálafræðingur rannsakaði brottfall úr sveitarstjórnum á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Mun meira brottfall er úr sveitarstjórnum hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Rúm 40% þeirra sem sitja í sveitarstjórnum eru ákveðin að hætta, tæp 30% eru enn að hugsa málið og 30% stefna á að halda áfram. Þetta segir Eva Marín Hlynsdóttir stjórnmálafræðingur í samtali við mbl.is en hún gerði könnun um málið á meðal sveitarstjórnarfólks.

Búast má við að hlutfall nýrra fulltrúa verði enn hærra. „Þetta er í raun sjálfviljugt brotthvarf (e. voluntary retirement), þetta fólk ákveður sjálft að hætta,“ segir Eva og bætir við að þá eigi eftir að bætast við brottfall vegna eðlilegrar endurnýjunar. Eðlileg endurnýjun telst t.d. ef fólk fellur út af lista eða kemst ekki áfram í prófkjöri.

Meira brottfall í minni sveitarfélögum

Eva segir ekki hægt að segja til um það hvort brottfall sé hærra í einstaka landshlutum en það virðist tengjast stær sveitarfélaga. „Þeir sem eru í minni sveitarfélögum eru líklegri til þess að ákveða að hætta en þeir sem eru í stærri.“

Eva segir sveitarstjórnir vinna náið með stjórnsýlunni og þær bæti svolítið upp fámennið í stjórnsýslunni. Það sé því ákveðið áhyggjuefni ef ör endurnýjun á sér stað í sveitarstjórnum. „Þá tapast þekking, mannauður og reynsla mjög ört út og þá í rauninni þarftu alltaf að vera að byrja upp á nýtt þegar það kemur nýtt fólk og stjórnsýslan er kannski ekki nægilega stór hjá okkur til þess að höndla þetta.“

Þá sé einnig brottfall hér mun hærra en annars staðar Norðurlöndunum. „Síðast voru almennt 58% nýir bæjarfulltrúar svo ef þú ert með 10 manna sveitarstjórn þá ertu að fá tæplega 6 nýja inn. Í öðrum löndum þá eru þessi hlutföll kannski 3 eða 4. Það er svolítið mikill munur.“

Konur hætta fyrr karlar

Konur hætta fyrr en karlar þó svo að báðir hópar hætti snemma. „Það er hærra hlutfall af konum sem hættir eftir fyrsta kjörtímabil og aftur hærra hlutfall af konum sem hættir eftir annað kjörtímabil, þær eru alltaf aðeins fleiri. Þó svo að báðir hópar fari hratt þá fara þær alltaf aðeins hraðar.“

Eva segist ekki búin að finna orsök þess að konur hætti fyrr en ákveðnir þættir virðist ólíkir þegar kemur að starfsaðstæðum. „Það er vinnutími, verkefnaskipting og svona ýmsir þættir sem við þurfum aðeins að kafa dýpra ofan í áður en við getum fullyrt um nákvæmlega hvað það er sem er að valda þessu.“

Að sögn Evu er við lýði svokallað áhugamannakerfi þegar kemur að stjórnmálum á sveitarstjórnarstiginu. „Við erum í rauninni með fólk sem er bara að gera þetta í frítíma og það lítur á þetta sem einhverskonar lýðræðislega skyldu og þá ertu komin með allt aðra hvata heldur en þegar þú ert með fólk sem sækist markvisst eftir endurkjöri því það lítur á þetta sem vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert