Neitaði að yfirgefa vinnustað eftir uppsögn

Maðurinn hlýddi ekki margítrekuðum fyrirmælum lögreglu.
Maðurinn hlýddi ekki margítrekuðum fyrirmælum lögreglu. mbl.is/Hjörtur

Um klukkan þrjú í dag var óskað eftir aðstoð lögreglu á vinnusvæði í miðbænum vegna manns sem hafði verið sagt upp störfum, en harðneitaði að yfirgefa svæðið. Hafði hann jafnframt í hótunum við fólk. Þegar maðurinn neitaði að hlýða margítrekuðum fyrirmælum lögreglu var hann tekinn tökum og fluttur handtekinn á lögreglustöð þar sem hann bíður nú yfirheyrslu. Maðurinn var ekki undir áhrifum vímuefna, að því er kemur fram í upplýsingum frá lögreglu.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu á Seltjarnarnes um eittleytið í dag þar sem tölvubúnaði var stolið. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Rétt rúmlega tvö í dag var svo tilkynnt um slys á leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þriggja ára drengur hafði slasast í rennibraut og hlaut hann áverka á munni. Meðal annars brotna tönn. Var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert