Róttæk skynsemishyggja nýrrar ríkisstjórnar

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar, sagði nýtt þing eins og áramót stjórnmálamanna og væntingar fyrir nýja ríkisstjórn miklar.

Þegar talið hafi verið upp úr kjörkössunum hafi niðurstaðan ekki verið skýr og enginn einn augljós kostur hefði verið á borðum. Áhersla nýrrar ríkisstjórnar sé lögð á brýn verkefni, mál sem þyrftu breiða samstöðu. Einhverjir myndu kalla þetta róttæka skynsemishyggju.

Bjarni sagði að flestir þingmenn vildu eflaust láta gott af sér leiða, en að flestir ættu það einnig sameiginlegt að þykja hlutirnir ganga hægt. Það skipti þó ekki máli hversu hratt hlutirnir gengju, heldur hvort miðaði fram á veginn.

Því sé sífellt haldið fram að á Alþingi sé ekkert rétt gert, samt sem áður sé staðan sú að efnahagsástand sé betra en verið hefur í áratugi og að tekist hafi að styrkja innviði.

Bjarni sagði stöðuna hafa verið óvenjulega í stjórnmálum síðastliðinn áratug, og að þá væri jafnvægi, ró og friður eftirsóknarverð. Í meðbyr reyndi líka á að vera skynsöm og að nýta hléið til að byggja upp.

Hann sagði efnahagsástandið einkennast af góðri afkomu þegar horft sé til frumgjalda og tekna en að þung vaxtabyrði dragi úr getu til að skila tekjum til uppbyggingar samfélagsins. Málin séu þó á réttri leið því skuldahlutföll hafi lækkað ört og sá efnahagslegi árangur sem náðst hefur undanfarin ár farin að skila sér í betri lánakjörum.

„Í orðabók er velsæld samheiti hamingju, velferðar, farsældar og velgengni. Við óskum íslenskri þjóð alls þessa og meira til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert