Úreltur tölvubúnaður rannsóknarskipa

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson.
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson.

Tölvubúnaður hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar er orðinn nærri 20 ára gamall og  er framleiðandinn hættur þjónustu á búnaðinum. Ef búnaðurinn bregst er skipið ónothæft í langan tíma og ógnar þetta rekstraröryggi skipsins.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 en gert er ráð fyrir að 55 milljónum króna verði forgangsraðað til endurnýjunar tölvustýribúnaðar skipsins. 

Nú í september bilaði stjórntölva í einni af þremur vélum rannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar og varð það til þess að skipið komst ekki í leiðangur á tilsettum tíma vegna þess að illa gekk að útvega varahluti. Þá sagði Sólmundur Már Jónsson, sviðsstjóri fjármála og rekstrar hjá Hafrannsóknastofnun, við Morgunblaðið, að skipið væri að minna á að tími á endurnýjun sé kominn. Vélarnar í skipinu hefðu verið endurnýjaðar árið 2004 og þar með stjórn- og tölvubúnaður þeirra. Í tækniheiminum séu þrettán ár langur tími. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert