„Við verðum að hlusta, við verðum að gera betur“

„Viljum við að á vettvangi fjölmiðla verði skilin óskýr milli …
„Viljum við að á vettvangi fjölmiðla verði skilin óskýr milli frétta og áróðurs?“ spurði forseti Íslands í ávarpi sínu við setningu Alþingis. mbl.is/Eggert

„Nú á dögum standa vonir til að við séum á tímamótum: Hingað og ekki lengra, heyrist um heim allan. Yfirgangur verður ekki lengur liðinn. Við verðum að hlusta, við verðum að gera betur. Við sem búum hér saman í þessu samfélagi,“ sagði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, í ávarpi sínu við setningu Alþingis.

Þar vísaði forsetinn í #metoo-byltinguna og sagði engu máli skipta í hvaða flokki fólk væri málstaðurinn væri það sterkur og þörfin það brýn. Hann sagði náttúruhamfarir, sem hefðu á Íslendingum dunið, hafa sýnt að við gætum staðið saman sem þjóð þegar mikið lægi við.  

Lítilmannlegt að villa á sér heimildir

Forseti talaði um kosningabaráttu síðustu kosninga og spurði: „Viljum við að mikið beri á auglýsingum, skömmum og útúrsnúningum sem enginn þorir að gangast við?“ Talsvert bar á slíkum auglýsingum sem settar voru fram í nafnleysi og minnti forseti á að oft hefði þótt lítilmannlegt að villa á sér heimildir.

Enn fremur spurði forseti: „Viljum við að á vettvangi fjölmiðla verði skilin óskýr milli frétta og áróðurs, milli staðreynda og skoðana þess sem flytur þær?“ Hann bætti við að víða um heim gætti uggs vegna áhrifa samfélagsmiðla á skoðanir fjöldans þar sem fólki hætti til að festast í fjötrum fordóma og falskra frétta frekar en að njóta frelsis til að kynnast fjölbreyttum hugmyndum og ólíkum sjónarmiðum. „Vítin eru varnaðar,“ sagði forseti.

Stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi eru nú 8 talsins og fagnaði forseti því að ólíkra viðhorfa gætti á þingi. Hann sagði rétt til ágreinings og ósættis undirstöðu frjálsra samfélaga. „Í stjórnmálum og allri þjóðfélagsumræðu verðum við að geta deilt, hampað eigin sannfæringu og andmælt skoðunum annarra.“ Jafnframt minnti hann á að gagnrýni væri eitt en óhróður annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert