Drógu vin sinn upp úr tjörninni

Ísinn á tjörnum í Reykjanesbæ er ótraustur og hvetur lögreglan …
Ísinn á tjörnum í Reykjanesbæ er ótraustur og hvetur lögreglan foreldra til að brýna fyrir börnunum sínum að fara varlega. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Lögreglan á Suðurnesjum varar við ótraustum ís á tjörnunum í Reykjanesbæ. Birti lögreglan í dag á Facebook-síðu sinni frásögn af 11 ára dreng sem datt ofan eina af tjörnunum, eftir að skilaboð bárust frá áhyggjufullu foreldri í bænum.

„11 ára sonur minn datt ofan í tjörnina áðan í gegnum ísinn. Hann var heppinn að vera ekki einn á ferð þar sem hann datt með lappirnar djúpt ofan í og bringuna ofan á ísinn, hann var orðinn svo þungur af blautum fötum að hann komst ekki uppúr sjálfur,“ segir í skilaboðunum.

„Hann var með 3 vinum sínum. Góðir vinir hér á ferð. Þeir drógu vin sinn upp úr tjörninni og klæddu hann í þurr föt sem þeir sjálfir voru í og hringdu í mig. Saman hlúðu þeir þrír vinirnir að vini sínum þangað til að ég og bróðir hans komum að ná í þá.“

Kveðst foreldrið hafa verið búið að brýna fyrir drengnum í gær að hann mætti aldrei fara út á ísinn án fullorðins með sér. „En þetta eru jú nú grallarar og ekki alltaf hlustað þegar maður talar. Vildi bara segja ykkur af þessu svo fleiri geti kannski brýnt fyrir sínum börnum að ísinn er ekki alls staðar traustur. Já og gleymdi að taka fram að hann skar sig lítillega inni í lófanum og er marinn og rispaður eftir ísinn á öðrum upphandleggnum.“

Hvetur lögreglan foreldra í Reykjanesbæ til að brýna fyrir börnunum sínum að fara varlega við þessar aðstæður.


„En þessir 3 drengir eru sannarlega vinir í raun og eiga mikið hrós skilið. 
Ef mamma og pabbi sjá þetta þá endilega skilið til þeirra frá okkur....vel gert strákar,“ segir í færslu lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert