„Einn af þessum litningagöllum í kerfinu“

mbl.is/Ernir

Faðir fatlaðs pilts gagnrýnir að velferðarsvið Reykjavíkurborgar taki ekki við umsóknum um framtíðarbúsetu fyrr en börnin verða átján ára. „Þetta er einn af þessum litningagöllum í kerfinu,“ segir Skarphéðinn Erlingsson.

„Mitt mat er það að ef tekið væri við búsetuumsóknum en þær ekki virkjaðar fyrr en við átján ára aldur hefði velferðarsvið og sveitarfélög betri yfirsýn yfir það sem koma skal. Þetta á því betur við eftir því sem sveitarfélagið er stærra,“ segir Skarphéðinn.

Hann sótti fund velferðarsviðs fyrir íbúa í Grafarvogi og á Kjalarnesi í gær þar sem áætlun um uppbyggingu íbúða fyrir þá sem þurfa sértæk úrræði var kynnt. Hún gildir til ársins 2030 og byggist á núverandi biðlistum velferðarsviðs, nýgengi og brottfalli.

161 á biðlista í borginni 

Fram kom á fundinum í gær að nú þegar sé 161 einstaklingur á biðlista í Reykjavík eftir sértæku úrræði. Á næstu tólf árum er gert ráð fyrir því að 39 manns muni koma nýir inn í kerfið sem þarfnist búsetu. Í áætlun velferðarsviðs er reiknað með því að íbúðum á vegum þess fyrir fatlaða muni fjölga um 159 til 184 til ársins 2030.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Foreldrarnir missa heilsuna

Skarphéðinn segir mörgum hafa verið mikið niðri fyrir á fundinum þar sem fá sértæk úrræði hafi komið til framkvæmda hjá borginni frá árinu 2011.

Hann bætir við að þeim foreldrum sem vilja vera framsýnir varðandi búsetuúrræði fyrir fötluð börn og skrá þau á biðlista áður en þau ná 18 ára aldri sé ýtt til hliðar.

Þeir einstaklingar sem séu í brýnni neyð gangi fyrir þegar komi að íbúðum og áhrifin af þessu séu margvísleg vegna þeirra sem séu mest sjálfbjarga. Þeir verði orðnir elstir þegar þeir fái loksins húsnæði.

mbl.is/Sigurður Bogi

Á meðal áhrifanna eru þau að foreldrar þeirra sem eru komnir af barnsaldri og þurfa að bíða lengi eftir húsnæði eru farnir að missa heilsuna, að sögn Skarphéðins, og þannig sé verið að búa til fleiri öryrkja með þessum uppsafnaða vanda. Þetta hafi hann séð í kringum sig. Einnig segir hann marga foreldra fatlaðra barna sem vilja minnka við sig bundna í húsnæði sínu á meðan engin sértæk úrræði eru fyrir hendi.

Skarphéðinn segir áætlun velferðarráðs metnaðargjarna og að það sé gott að fyrir liggi áætlun fyrir næstu 12 árin. „Engu að síður er það svo að margt af því fólki sem kemur til með að fá úthlutað húsnæði á þessum 12 árum er þegar búið að bíða lengi. Fulltrúum velferðarsviðs hefur ítrekað verið bent á að það þyrfti að gera meira strax,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert