„Þessu verður engu að síður fylgt eftir“

Ein helsta eign Klakka er fjármálafyrirtækið Lýsing.
Ein helsta eign Klakka er fjármálafyrirtækið Lýsing. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mótmælunum sem fara áttu fram fyrir utan höfuðstöðvar Klakka á hádegi í dag hefur verið aflýst. Ákveðið var að hætta við mótmælin vegna ákvörðunar stjórnar Klakka að draga fyrirætlaðar bónusgreiðslur til starfsmanna félagsins til baka. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, á Facebook-síðu hans.

„Það gefur kannski augaleið að þegar stjórnarmenn taka þá ákvörðun að draga þessa bónusa til baka, þá fannst okkur ekki annað tækt en að hætta við mótmælin. En við munum að sama skapi fylgjast alveg gríðarlega vel með,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is, og þar á hann ekki aðeins við Klakka og ferlið sem fyrirtækið er að fara í, heldur umhverfið allt.

„Við munum jafnvel beita okkur fyrir því að einhvers konar regluverk verði sett til þess að koma í veg fyrir þetta, annað hvort í gegn um skattkerfið eða með hertari lögum.“

Hann segir ákvörðunina vissulega ákveðinn sigur. „Fyrst og fremst fyrir þær sakir að almenningur tekur þarna mjög vel við sér. Svona pressa getur ekki skilað þessum árangri nema fólkið taki þátt og láti sig þetta varða. Það er fyrst og fremst það sem skilar þessum árangri að fyrirtækin bakka með þessa ákvörðun.“

„Það verða engin mótmæli í dag en þessu verður engu að síður fylgt eftir.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert