Lögreglan ber til baka fregnir af árás

Lögreglan.
Lögreglan. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

ATH: Fréttin hefur verið uppfærð vegna misskilnings við tilkynningu til lögreglu.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur dregið til baka fregnir um að ráðist hafi verið á barnshafandi konu í Sandgerði í dag. 

Fyrr í kvöld tísti lögreglan tilkynningu þess efnis undir myllumerkinu #löggutíst sem hluta af Twitter maraþoni lögreglunnar á Norðurlandi eystra, lögreglunnar á Suðurnesjum og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Lögreglan á Suðurnesjum hefur nú leiðrétt fyrrnefnt tíst með nýju tísti þar sem segir að konan hafi náð að yfirgefa heimili sitt áður en slagsmál brutust út á milli tveggja ölvaðra manna og sé óhult. Ástæðan fyrir misskilningnum hafi verið ölvun og tungumálaörðugleikar. 

Hér að neðan má lesa upprunalegu fréttina sem reyndist á misskilningi byggð:

Ráðist var á þungaða konu í Sandgerði nú undir kvöld en gerandinn ók ölvaður af vettvangi.

Samkvæmt lögreglunni á Suðurnesjum var gerandinn vinnufélagi maka konunnar. Höfðu báðir haft áfengi um hönd og konunni og geranda lent saman með fyrrgreindum afleiðingum.

Konan var færð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar en meiðsli hennar munu vera minni háttar. Lögregla leitar nú mannsins.

Lögreglan á Suðurnesjum greindi upprunalega frá málinu á Twitter-aðgangi sínum. Nú stendur yfir árlegt Twitter-maraþon lögreglunnar undir myllumerkinu #löggutíst þar sem lögreglan á Norðurlandi eystra, lögreglan á Suðurnesjum og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nota samfélagsmiðilinn til að segja frá öllum verkefnum.

Hægt er að fylgjast með öllum tístum á forsíðu mbl.is eða á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert